Aðgangur að sjúkraskýrslum

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:52:33 (128)

1999-10-06 15:52:33# 125. lþ. 4.94 fundur 35#B aðgangur að sjúkraskýrslum# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil strax taka fram að ég held að 13. þm. Reykv. gangi gott eitt til að taka þetta mál upp utan dagskrár. Persónuverndin heyrir að vísu undir tölvunefnd og dómsmrn. en að öðru leyti svara ég hv. þm.

Í ráðuneytinu er unnið að undirbúningi leyfis til rekstrar gagnagrunns á heilbrigðissviði á grundvelli laga nr. 139/1998. Skipuð var nefnd til að gera tillögu til ráðherra um veitingu rekstrarleyfis og efni þess. Nefndin er skipuð Davíð Á. Gunnarssyni ráðuneytisstjóra, Sigurði Þórðarsyni ríkisendurskoðanda og Jóni Sveinssyni hæstaréttarlögmanni.

Nefndin leitaði fyrir skemmstu eftir því við tölvunefnd að fulltrúar Íslenskrar erfðagreiningar og Sjúkrahúss Reykjavíkur fengju leyfi til að athuga 30 sjúkraskrár til að geta áttað sig á hvaða upplýsingar væru skráðar. Tölvunefndin veitti heimildina tafarlaust að settum skilyrðum sem viðkomandi sættu sig við. Heilbrrn. hefur ekki komið beint að málinu en þar sem tölvunefnd tryggir persónuvernd borgaranna í landinu þótti þriggja manna nefndinni rétt að fara fram á heimild frá henni. Ég tek sérstaklega fram að færustu sérfræðingar hafa komið að málinu. Ég treysti fullkomlega mati sérfræðinganna, sem kunnir eru fyrir ábyrgð í störfum sínum, til að fara með þetta mál samkvæmt ströngustu kröfum. Tölvunefnd hefur hingað til verið fullkomlega treystandi þegar persónuvernd er annars vegar. Skilyrði hennar nú sýna að hún er traustsins verð. Rekstrarleyfisnefndin er í viðræðum við Íslenska erfðagreiningu um gagnagrunninn. Það sem hér er spurt um er liður í þeim undirbúningi. Að öðru leyti tel ég mér ekki fært að svara fyrir jafnágæta nefnd og tölvunefnd og ég veit að hv. þm. skilur það og virðir.