Aðgangur að sjúkraskýrslum

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:54:59 (129)

1999-10-06 15:54:59# 125. lþ. 4.94 fundur 35#B aðgangur að sjúkraskýrslum# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:54]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Fyrir rúmu ári fór fram í þinginu mikil umræða um persónuupplýsingar, aðgang að sjúkraskrám, dulkóðun og fleira sem viðkemur persónuvernd og það í umfjöllum um gagnagrunnslögin. Menn voru sammála um að mikil leynd þyrfti að ríkja í meðferð sjúkraskráa og almenningur ætti að eiga þess kost að hafna því að heilsufarsupplýsingar um þá færu í gagnagrunninn, þ.e. væru notaðar til rannsókna. Þó hér sé ekki verið að ræða um heilsufarsupplýsingar í gagnagrunninn, enda rekstrarleyfi ekki verið veitt enn, þá hefur tölvunefnd heimilað aðgang að 30 sjúkraskrám óháð því hvort viðkomandi sjúklingar hafi hafnað eða samþykkt að upplýsingar um þá verði notaðar í þessa veru. Það er alvarlegt þegar tölvunefnd veitir heimild sem þessa, aðgang að sjúkraskrám á þennan hátt. Við skulum ekki gleyma því að 12.700 manns hér á landi vilja ekki heimila aðgang að sjúkraskrám sínum og upplýsingum. Ég fagna afskiptum landlæknis af málinu og yfirmanna Sjúkrahúss Reykjavíkur og tel að þetta mál hafi verið leyst að frumkvæði þeirra. En svona vinnubrögð rýra álit og traust tölvunefndar og skaða vísindastarf á sviði erfðafræði. Það er slæmt vegna þess vaxtarbroddar í íslensku vísinda- og atvinnulífi sem það er. Tölvunefnd ber að vanda vinnubrögð sín og vinna í takt við vilja löggjafans.

Herra forseti. Seint verður of varlega farið þegar persónuvernd er annars vegar.