Aðgangur að sjúkraskýrslum

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 16:00:26 (132)

1999-10-06 16:00:26# 125. lþ. 4.94 fundur 35#B aðgangur að sjúkraskýrslum# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[16:00]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Mér finnst þessi umræða vera dálítið fljótfærnisleg. Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því að sérstök lög gilda um starfsemi tölvunefndar sem er sá aðili í þessu máli sem veitir leyfið, lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Þar er skýrt tekið fram í almennum kafla um reglur um heimild til skráningar að hún hafi heimild til þess að leyfa skráningu og geti bundið slíka heimild þeim skilyrðum sem hún metur nauðsynleg hverju sinni.

Ég hef ekki fyrr heyrt menn vega svo að tölvunefnd sem nú er gert. Mér er það undrunarefni að skyndilega skuli mat manna á tölvunefnd vera orðið það sem hér birtist í ræðum sumra þingmanna. Ég tel rétt að þeir færi frekar rök fyrir því að tölvunefnd hafi misstigið sig í þessu máli. Ég fæ ekki séð að svo hafi verið. Ég verð að vekja athygli manna á því að það er ekki hægt að gagnrýna tölvunefnd út frá afstöðu manna til þess hvort það eigi að gera gagnagrunn eða ekki. Þeir sem eru á móti því að gera gagnagrunn geta ekki gagnrýnt tölvunefnd fyrir að stuðla að því að lögunum um gagnagrunn sé framfylgt.

Mér finnst þetta að mörgu leyti vera eðlilegt fyrirkomulag, að þegar að gera á þennan grunn þá þurfa þeir sem eiga að smíða hann að hafa aðgang að gögnum til þess að geta áttað sig á því hvernig eigi að standa að verkinu. (Gripið fram í: Það er sem sagt búið að ákveða það?) Þannig að ég fæ ekki séð, herra forseti, að gagnrýnin eigi við rök að styðjast.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, vekja athygli á því að lögin sem ég vitna til heyra undir dómsmrh. og er á færi hans að setja reglugerðir um það mál og hlutast til um tölvunefnd þar sem ráðherra getur því við komið. Ég vil því segja við hv. þm. að það er algerlega á misskilningi byggt að beina þessari umræðu að hæstv. heilbrrh. sem hefur ekki nokkurt færi á að hafa afskipti af framkvæmd þessara laga.