Aðgangur að sjúkraskýrslum

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 16:04:47 (134)

1999-10-06 16:04:47# 125. lþ. 4.94 fundur 35#B aðgangur að sjúkraskýrslum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[16:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Menn geta svo sannarlega komið hér, eins og tvö síðustu dæmi sanna, og talið harla lítið mál og léttvægt hvernig farið er með 30 sjúkraskrár. Þeir geta talað um upphlaup að ástæðulausu og ótímabærar áhyggjur og allt þar fram eftir götunum. En ég verð að segja að alltaf finnst mér heldur dapurlegt þegar menn hafa ekki annað handbært í röksemdafærslunni en að bæta eitt böl svo að benda á annað verra.

Að vísu eru hér á ferð lærisveinar hæstv. forsrh. sem barði niður alla gagnrýni á gagnagrunnshugmyndirnar með því að benda á að meðferð sjúkraskýrslna væri nú þegar stórlega ábótavant. (TIO: Hv. þm., er krabbamein ekki mikið böl?) Skilur hv. þm. ekki þetta íslenska máltæki: ,,Svo skal böl bæta að benda á annað verra``? Það er að réttlæta eina synd með því að benda á það að fleiri séu framdar. Annars verð ég að fá málfræðing mér fróðari til að útlista þetta betur fyrir þingmanninum, hann hefur greinilega ekki mikla tilfinningu fyrir málinu.

Herra forseti, hér er um stórt mál að ræða vegna þess að hér er um prinsippmál að ræða. Þá skiptir fjöldinn, 30 eða 300 eða 3.000 ekki öllu máli. Hér er um prinsippmál að ræða sem snýr að persónuvernd og friðhelgi einkalífs og einkaupplýsinga. Á þeim grunni ber að ræða þetta. Og auðvitað hrukku menn við þegar þær undarlegu fréttir bárust að tölvunefnd hefði heimilað aðilum úti í bæ skoðun þessara upplýsingar án samþykkis þeirra sem þær eiga, þ.e. sjúklinganna. Ég segi að hér hafi brugðist þeir sem menn treysta á, þ.e. heilbrigðisráðuneytið, sem sannarlega fer með forræði fyrir heilbrigðismálum og ber ábyrgð á þeirri nefnd sem þarna er að störfum og bað um leyfið, og svo auðvitað tölvunefnd. Það er þeim mun verra þegar slíkir aðilar eiga í hlut sem menn treysta að standi vaktina í þessum efnum --- þeir brugðust.

Það bætir ekki það tjón sem hér er orðið þó svo vel takist til að Sjúkrahús Reykjavíkur og landlæknir nái að leiðrétta þessar vitleysur. Í mínum huga er skaðinn skeður. Þessir aðilar sváfu á verðinum og eru sekir um vítavert andvaraleysi svo ekki sé sagt kæruleysi. Ég vona að það verði þeim alvarleg áminning og sambærilegir hlutir endurtaki sig ekki.