Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 10:35:07 (143)

1999-10-07 10:35:07# 125. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[10:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér er til áframhaldandi umræðu það þingmál sem rætt var í gær og varðar breytingar á tilhögun á innheimtu vörugjalds af eldsneyti, þ.e. bensíni. Mér auðnaðist ekki í gær að svara öllum þeim fyrirspurnum sem fram komu þó að mörgum hafi verið svarað og ég vil nota þetta tækifæri og svara í stuttu máli þeim spurningum sem eftir standa og komu fram í máli einstakra þingmanna. Ég vil líka nota tækifærið og þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur almennt fengið í þinginu. Mér heyrist að menn séu almennt sáttir við að breyta um aðferð við að innheimta vörugjaldið og séu almennt inni á því að það eigi að hverfa frá því að innheimta hlutfallsgjald sem magnar sveiflur og fara yfir í að innheimta fast krónugjald sem dregur úr sveiflum.

Eðlilega vakna ýmsar spurningar um mál sem þetta og það er fullkomlega rétt að menn beri þær fram við umræður hér og ég reyni að svara því sem ég hef svör við.

Ég vil segja í upphafi að hv. þm. Jón Bjarnason vék að örlítið öðru máli í sínu tali. Hann vék að innheimtu þungaskatts. Má vera að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi líka drepið á það. Það er mál sem fjallað er um í öðrum lögum og er ekki sama málið og þetta þó að það sé skylt.

Ég vil gjarnan láta það koma fram af þessu tilefni að þungaskattsinnheimtan hefur verið til meðferðar eins og ýmsir þingmenn muna á undanförnum árum, bæði í fjmrn. og í þinginu, og lögum hefur ítrekað verið breytt, m.a. vegna frumkvæðis eða ábendinga frá samkeppnisráði. Það hefur enn á ný borist álit frá samkeppnisráði vegna þessa máls og það er best að segja það strax að málið er til áframhaldandi skoðunar í fjmrn. Við gerum ráð fyrir því að það muni síðar koma til kasta þingsins. En vegna þess að það eru ekki sömu lögin og við erum hér með til meðferðar, sé ég ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um það hér. Við komum væntanlega að því síðar á þinginu vegna þess að þetta er gamall kunningi sem stingur hér upp kollinum annað slagið.

Ég vil koma að spurningum hv. 5. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ég náði ekki að svara í gær. Hún getur að vísu ekki verið hér viðstödd og var búin að segja mér það. En ég sagði henni að ég mundi svara því sem ósvarað væri þannig að það lægi fyrir hver mín afstaða til þeirra atriða væri og það er í góðu samkomulagi okkar í milli.

Hún spurði hvort unnt væri að hafa þetta fyrirkomulag með öðrum hætti, þ.e. þannig að það væri 97% vörugjald upp að ákveðnu þaki. Þessi hugmynd hefur heyrst frá nokkrum aðilum úti í þjóðfélaginu en ég tel að þetta sé ekki raunhæf tillaga. Mér er ljóst hvað liggur þarna að baki, en ég held að það sé annaðhvort að fara alveg yfir í fast krónugjald eða halda sig við hlutfallstölurnar. Sambland af því gengur sjaldnast nema bæði sé þak og gólf. Ég held að hyggilegast sé að gera þessa breytingu sem hreinasta þannig að menn viti nákvæmlega hvar þeir standa í þessu efni. Ég leggst þess vegna gegn því að fara þá leið sem við skoðuðum reyndar í fjmrn. áður en frv. var samið og ákváðum að gera ekki að okkar.

Þingmaðurinn nefndi að ef litið væri á annað meðaltal en er að finna í greinargerð frv., þá kæmu aðrar tölur út. Ég gat þess í framsögu minni og það kemur fram í greinargerð frv. að talan 10,50 kr. af hverjum lítra er lægri en meðaltal af þessu gjaldi undanfarin fimm ár þegar búið er að framreikna það til núverandi verðlags. En hv. þm. benti á að ef tekið er meðaltal einungis af árinu 1998 og 1999, þá væri þetta nokkru lægra. Það er augljóst mál. Ef maður tekur meðaltal bara af árinu í ár þá yrði það enn lægra. Auðvitað fer þetta eftir því við hvað er miðað. En það er eðlilegt og sanngjarnt að horfa nokkuð langt aftur í tímann þegar verið er að taka svona ákvörðun og þess vegna m.a. hefur talan 10,50 verið valin. Eins og ég gat um í gær, ef menn fara enn lengra aftur í tímann en fimm ár, þá er hægt að finna enn frekari rökstuðning til þess að miða við þetta.

Eins og ég gat um hefur þessi tala verið notuð við undirbúning fjárlaga og ef menn skoða fjárlagatöluna fyrir þennan tekjustofn geta þeir nokkurn veginn reiknað út og séð í hendi sér að þar eru talan 10,50 á bak við.

Ég hef þegar svarað þeirri spurningu hver tekjuþróun af þessu gjaldi hefur verið á þessu ári og sömuleiðis af sérstaka vörugjaldinu eða bensíngjaldinu sem við köllum og rennur til vegagerðar. Það vill þannig til að báðir þessir tekjustofnar eru undir áætlun miðað við það sem menn höfðu gert ráð fyrir. Það stafar af því, eins og ég sagði í gær, að bensínið lækkaði miklu meira í innflutningsverði en áður hafði verið gert ráð fyrir á árinu 1998 og sömuleiðis í ár. Á þessu eru því skýringar. Ég get látið þess getið að á árinu 1998 var vörugjaldið sem við erum að fjalla um hér rúmlega 400 millj. kr. neðan við áætlun þess árs vegna þess hversu bensínið lækkaði mikið. Það hefur því ekki verið svo eins og margur hefur látið í þessum umræðum að ríkissjóður hafi haft einhvern óskaplegan ávinning af þessum bensínhækkunum að undanförnu miðað við það sem áætlað var.

Menn hafa spurt að því ítrekað hér hverjar væru umframtekjur ríkissjóðs vegna hækkunar á bensíni. Þær eru því miður engar vegna þess hve bensínið var búið að lækka mikið áður. Það er ágætt að þetta liggi fyrir.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir velti því fyrir sér hvort hér væri þá um varanlega breytingu að ræða sem mundi skila sér örugglega. Ég held að það sé alveg ljóst að ef þetta nær svona fram að ganga, þá er hér um varanlega breytingu að ræða. Hún mun örugglega skila sér. Hversu snemma fer eftir því hvenær þingið lýkur afgreiðslu málsins. Ég set enga sérstaka pressu á það að öðru leyti en því sem ég hef þegar bent á, þ.e. því fyrr, þeim mun betra fyrir bensínnotendur. Klukkan tifar á þá í þessu máli, eins og ég sagði í gær, en ríkisstjórnin hefur gert þetta mál að forgangsmáli í þeim skilningi að hún hefur flutt það mjög snemma og þetta er fyrsta þingmál fyrir utan fjárlagafrv. sem hér kemur til meðferðar.

Ég vil þá koma nokkuð að öðrum spurningum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði hvort unnt væri að setja einhvers konar endurskoðunarákvæði í lögin. Hv. þm. Þuríður Backman vék að sama atriði, að það væri eðlilegt að endurskoða þetta með reglubundnu millibili, kannski árlega, í tengslum við fjárlagagerðina og það er nákvæmlega það sem þarf að gera. Það þarf að taka sjálfstæða ákvörðun á hverju ári um það hvort þetta gjald eigi að vera óbreytt eða hvort það eigi að breyta því. Það er eðlilegast að mínum dómi að gera það í tengslum við fjárlagagerð. Ég held að það sé ekki eðlilegt að hafa sjálfvirkt breytingarákvæði í lögunum, en það er að sjálfsögðu hægt. Ég bendi á í tengslum við 2. gr. frv. um að afnema reglugerðarheimild ráðherra og flytja hana yfir til þingsins, þá væri að sjálfsögðu hægt að setja í frv. ákvæði um að bensíngjaldið skyldi hækka eða breytast með einhverjum ákveðnum hætti á einhverjum ákveðnum tíma. Það er hægt að setja það í lögin. Það er þá ákvörðun þingsins.

Sama er hægt að gera við vörugjaldið og segja: Það á að hækka á einhverjum ákveðnum tíma um eitthvað ákveðið eða lækka, ef menn vilja það. Þetta er allt saman hægt en það verður að gerast með lögum héðan í frá. Það verður að ákveðast á Alþingi og það er eðlilegt að mínum dómi að gera það í hvert skipti þegar fjárlagaundirbúningur er á ferðinni í stað þess að gera það með sjálfvirkri endurskoðun eða með ákvæðum eins og þeim sem ég nefndi, að á ákveðnum tímapunkti mundu gjöldin breytast.

[10:45]

Breytingin sem varðar bensíngjaldið og lýtur að því að afnema reglugerðarheimild ráðherra er mjög mikilvæg. En hún er að hluta til annars eðlis. Hún snýst um að flytja reglugerðarvald frá ráðherra til Alþingis. Alþingi getur síðan ákveðið, ef það vill, að þetta gjald eða eitthvert annað gjald hækki í samræmi við vísitöluhækkanir. En þá er líka verið að ákveða að svo skuli vera og ekki verið að fela ráðherranum mat um það hvort það eigi að gera eða fela honum valdið til þess.

Ég held að málið liggi nokkuð ljóst fyrir. Það er ekki þannig að með þessu sé verið að taka undir það frv. sem var flutt í vor af hálfu Samfylkingarinnar, eins og hefur komið fram í umræðunum, án þess að ég vilji taka upp þá umræðu á nýjan leik. Það sem hefur gerst frá því að málin voru rædd á sumarþinginu er öllum ljóst. Ég hélt því þá fram að bensínlækkanir væru fram undan. Það var almennt talið vegna þess að þá var vetur afstaðinn og eftirspurn eftir olíu minnkar venjulega í kjölfarið á því og þar með lækkar verðið. Aðrir atburðir urðu til þess að þetta varð ekki raunin. Við því erum við að bregðast núna.

Bensíngjaldshækkunin, sem var til umræðu á vorþinginu, var allt annars eðlis heldur en þessi breyting. Hún snerist um það að ráðherra hafði hagnýtt sér reglugerðarvald sitt til þess að hækka bensíngjald er rann til vegagerðar í samræmi við það sem áætlanir gerðu ráð fyrir í fjárlögum og vegáætlun.

Hérna er verið að tala um tekjustofninn sem rennur í ríkissjóð. Hann var ekkert sérstaklega til umræðu á vorþinginu. Við erum að breyta því kerfi sem við höfum komið okkur upp á undanförnum árum, sem hefur magnað upp sveiflur, og festa það í form sem dregur úr sveiflum. Það er kjarni málsins. Það er kjarni málsins og síðan verður maður bara að vona að því til viðbótar verði verðlagsþróun á olíuvörum þannig að hún verði þjóðarbúi okkar hagstæð. Það vitum við náttúrlega ekki um frekar en í vor.

Ég vil endurtaka þakkir við þær undirtektir sem málið hefur fengið. Ég vona að það fái ítarlega og ígrundaða skoðun í efh.- og viðskn. eins og öll svona mál eiga að fá og að allir sem telji sig eiga hagsmuna að gæta fái þar áheyrn og geti komið sjónarmiðum sínum að. En ég vona eigi að síður að málið fá greiða og góða afgreiðslu í nefndinni þegar slíkri yfirferð er lokið.