Starfsheiti landslagshönnuða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 11:17:21 (150)

1999-10-07 11:17:21# 125. lþ. 5.7 fundur 21. mál: #A starfsheiti landslagshönnuða# (landslagsarkitektar) frv. 4/2000, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[11:17]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á starfsheiti landslagshönnuða á þskj. 21 og er 21. mál þingsins. Í frv. þessu er gert ráð fyrir því að hið lögverndaða heiti landslagshönnuða breytist í landslagsarkitekta en áfram megi þó nota heitið landslagshönnuður. Í þessu skyni yrði tvennum lögum breytt, annars vegar lögum nr. 8/1966, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, og hins vegar lögum nr. 73/1997, skipulags- og byggingarlögum.

Félag ísl. landslagsarkitekta, sem stofnað var 1978, óskaði eftir breytingu á löggjöf en hefðin fyrir starfsheitinu landslagsarkitekt er jafngömul félaginu og nota allir félagsmenn það.

Framangreind breyting hefur verið borin undir Arkitektafélag Íslands. Kom þá fram að allir félagar í Félagi ísl. landslagsarkitekta eru með háskólapróf í landslagsarkitektúr og féllst Arkitektafélag Íslands á að þeir sem uppfylltu skilyrði til að gerast félagar í Félagi ísl. landslagsarkitekta fengju löggildingu á starfsheitinu landslagsarkitekt enda var gengið út frá því að menntunarkröfur væru sambærilegar þeim sem Arkitektafélag Íslands gerir til félaga sinna.

Við undirbúning frv. þessa var haft samband við Félag húsgagna- og innanhússarkitekta sem vildi einnig fá að nota orðið arkitekt sem viðskeyti í hinu löggilta starfsheiti sínu sem er húsgagna- og innanhússhönnuður. Þar er sumir félagsmenn í félaginu hafa ekki háskólamenntun eða sambærilega menntun eða þá minni háskólamenntun en arkitektar varð ekki samkomulag milli Félags húsgagna- og innanhússarkitekta og Arkitektafélags Íslands um að ástæða væri til að breyta gildandi löggjöf vegna húsgagna- og innanhússhönnuða og búast má við að félögin ræði málið nánar sín á milli. Er því ekki í frv. gert ráð fyrir breytingu á löggjöf með tilliti til húsgagna- og innanhússhönnuða. Ekki verður séð að frv. hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til iðnn.