Iðnaðarlög

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 11:19:58 (151)

1999-10-07 11:19:58# 125. lþ. 5.8 fundur 22. mál: #A iðnaðarlög# (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.) frv. 133/1999, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[11:19]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á iðnaðarlögum, nr. 42 18. maí 1978, með síðari breytingum, sem er á þskj. 22 og er 22. mál þingsins. Markmiðið með frv. sem er efnislega óbreytt frá 123. löggjafarþingi er í stuttu máli tvíþætt: Annars vegar er ætlunin að leysa úr vanda sveina við að fá meistarabréf í iðngrein sinni ef eigi er völ á meistara í greininni. Hins vegar er skilið á milli hlutverks menntmrh. annars vegar varðandi menntun í löggiltum iðngreinum og hlutverk iðnrh. hins vegar við að veita mönnum síðar starfsréttindi í þeim greinum.

Setning reglugerða um það hvaða iðngreinar skuli vera löggiltar, svo og útgáfa sveinsbréfa, mun við þessa breytingu færast frá menntmrh. til iðnrh.

Nú er það svo að skv. 10. gr. iðnaðarlaga þurfa þeir sem lokið hafa sveinsprófi í löggiltum iðngreinum ekki einungis að ljúka meistaraprófi í iðn sinni frá meistaraskóla heldur þurfa þeir einnig að hafa starfað eitt ár minnst undir stjórn meistara áður en þeir geta fengið meistarabréf í grein sinni. Þeir sem lokið hafa námi í meistaraskóla í nýrri iðngrein eiga hins vegar af skiljanlegum ástæðum ekki völ á meistara í iðngrein sinni. Það er með öðrum orðum ómögulegt þar sem enginn meistari er til í greininni. Úr þessu er ætlunin að bæta með breytingu á iðnaðarlögum.

Segir í 2. gr. frv. að í stað eins árs starfs sveina hjá meistara geti komið tveggja ára starf hans í hinni nýju iðngrein. Gildir þetta fimm fyrstu árin eftir löggildingu iðngreinarinnar því að hugsast getur að fyrsti eða fyrstu meistararnir í hinni nýju iðngrein geti ekki gefið öllum kost á starfi undir sinni stjórn. Eðlilegt þykir að gera kröfur um tveggja ára starf í iðngreininni í stað eins árs hjá meistara þar eð ætla má að starf hjá meistara sé notadrýgra.

Einnig er ætlunin með 2. gr. frv. að leysa úr þeim vanda ef ekki er starfandi meistari í iðngreint almennt eða sveinar eiga af öðrum ástæðum sannarlega engan kost á starfi undir stjórn meistara. T.d. ef starfandi meistari í fámennri iðngrein er að vísu til staðar en hann getur ekki vegna aldurs eða heilsuleysis tekið svein til starfa. Mundi þetta almenna ákvæði taka mið af sérákvæðum um nýju iðngreinina að loknum fimm árum frá löggildingu þeirra.

Bæði þegar ákvæðin um nýjar iðngreinar eða iðngreinar almennt gilda skal gefa viðkomandi félagi iðnaðarmanna, m.a. landssamtökum sveina og meistara, kost á að segja álit sitt á því hvort völ sé á starfi í viðkomandi iðngrein. Samsvarandi ákvæði um að leita álits er í 2. mgr. 2. gr. iðnaðarlaga og snertir viðurkenningu á starfi og starfsþjálfun í iðnaði í öðru EES-ríki. Álit þessara aðila getur auðveldað erfitt mat á því hvort völ sé á meistara. Tækifærið er notað til að fella niður núverandi 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna þar eð viðkomandi ákvæði eru orðin úrelt vegna þess að meistaraskóli er nú ávallt fyrir hendi í löggiltum iðngreinum.

Samkvæmt 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að iðnrh. ákveði í reglugerð hvaða iðngreinar séu löggiltar en menntmrh. hefur á grundvelli ákvæða 16. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, kveðið á um slíkt. Þetta ákvæði framhaldsskólalaganna mun falla úr gildi ef frv. þetta verður að lögum. Þykir eðlilegra að iðnrh. taki ákvarðanir um það hvaða iðngreinar séu löggiltar, þ.e. starfsréttur í iðninni heyri undir hann, en ekki menntmrh. sem sér hins vegar um menntun þeirra er starfa í löggildum iðngreinum. Gert er ráð fyrir að iðnrh. hafi samráð við menntmrh. við mat á löggildingu, enda getur löggildingin tengst kennslu t.d. í fámennum iðngreinum. Þá er gert ráð fyrir því að einnig sé haft samráð við landssamtök meistara og sveina um það hvaða iðngreinar skuli löggiltar.

Ákvæði 3. gr. frv. fela í sér að iðnrh. gefi út sveinsbréf í stað menntmrh. sem gefur þau út nú á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 278 frá 1997, um sveinspróf. Sama gjald verður tekið fyrir sveinsbréf og verið hefur, nú 5.000 kr. Eðlilegra þykir að iðnrh. gefi sveinsbréfin út en menntmrh. af framansögðu. Í því sambandi má geta þess að meistarabréf eru gefin út af lögreglustjórum á grundvelli iðnaðarlaga. Útgáfa meistarabréfa heyrir með öðrum orðum undir iðnrh.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir nauðsynlegum breytingum á viðurlagsákvæðum 16. gr. iðnaðarlaga með hliðsjón af þeim breytingum sem felast í frv. Ítrekuð brot á iðnaðarlögum geta samkvæmt þessu ákvæði leitt til missis sveinsbréfs. Gert er ráð fyrir að breytingarnar samkvæmt frv. hafi óveruleg áhrif á kostnað ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og iðnn.