Iðnaðarlög

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 11:41:26 (156)

1999-10-07 11:41:26# 125. lþ. 5.8 fundur 22. mál: #A iðnaðarlög# (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.) frv. 133/1999, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[11:41]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki stórmál, segir hæstv. ráðherra. Mér finnst það bara hreinlega stórmál þegar menntmrn. stendur sig ekki betur en þetta. Mér finnst það vera töluvert mikið mál. Og ég held að menn ættu að velta því vandlega fyrir sér hvort eigi ekki bara að fara í það að endurútgefa öll meistarabréf sem hafa verið gefin út, og önnur réttindi sem hafa verið gefin út þennan tíma, um leið og einhver reglugerð er komin í gildi. Það sé þá ekkert verið að velkjast í vafa um hvort hlutirnir hafi verið í lagi.

En þrátt fyrir að menn mundu gera það þá eru svona vinnubrögð ekki til þess að hrópa húrra fyrir, nema síður sé. Mér finnst þess vegna full ástæða til að koma slíkri gagnrýni á framfæri. Ég ætlaði með skriflegri fyrirspurn að fá botn í þetta mál. En alla vega liggur það fyrir sem hér hefur komið fram að ekki hefur verið farið að lögum, þessi reglugerð hefur ekki verið gefin út og menntmrn. hefur ekki staðið sig í stykkinu. Það er full ástæða til að gagnrýna það, og mér finnst það út af fyrir sig vera stórt mál þegar ráðuneyti hefur ekki staðið sig betur en þetta.