Öryggi greiðslufyrirmæla

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:02:19 (161)

1999-10-07 12:02:19# 125. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A öryggi greiðslufyrirmæla# (EES-reglur) frv. 90/1999, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:02]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um um öryggi greiðslufyrirmæla og greiðslujöfnunar í greiðslukerfum sem er á þskj. 23 og er 23. mál þingsins.

Í frv. er að finna tillögur um að taka upp í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins og Evrópuþingsins nr. 26 19/1998, um efndir og lok viðskipta í uppgjörskerfum fyrir verðbréf og greiðslur í fjármálaviðskiptum.

Tilgangur með setningu þessara reglna er að bregðast við þeirri kerfisbundnu áhættu sem bent var á og hefur verið bent á í skýrslu sem gefin var út 1990 og er kennd við ,,Lamfalussy`` sem samin var fyrir seðlabankastjóra tíu helstu iðnríkja heims.

Í frv. er lagt til að í viðskiptum á fjármálamarkaði sem fram fara í greiðslukerfum hér á landi verði tryggt að uppgjör viðskipta sé í engu raskað þrátt fyrir að gjaldþrotameðferð sé hafin á hendur einum þátttakenda í viðskiptunum. Markmið frv. er því að einangra uppgjör sem fer fram í greiðslukerfum fyrir fjármagnsmarkaðinn frá almennum riftunarákvæðum laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.

Ég vil þá, með leyfi hæstv. forseta, víkja að einstökum ákvæðum þessa frv.

Í 1. gr. er gildissvið afmarkað og er frv. ætlað að taka til greiðslukerfa sem rekin eru hér á landi og hafa verið tilnefnd í samræmi við ákvæði 3. gr. frv.

Í 2. gr. er að finna ýmsar mikilvægar skilgreiningar á greiðslukerfi og helstu þátttakendum í uppgjöri viðskipta á fjármagnsmarkaði til að mynda stofnun sem undir það hugtak falla, viðskiptabankar, sparisjóðir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu svo dæmi séu tekin um aðila sem falla undir það hugtak.

Í frv. eru greiðslufyrirmæli skilgreind og greiðslujöfnun og er það mikilvægt þannig að skýrt sé hvers konar fyrirmælum í uppgjöri fjármálastofnana frv. er ætlað að veita vernd. Jafnframt eru í 2. gr. ýmsar aðrar þýðingarmiklar skilgreiningar sem ég tel ekki ástæðu til að gera nánari grein fyrir hér.

Í 3. gr. kemur fram að Seðlabanki Íslands gerir tillögur um hvaða greiðslukerfi skuli falla undir ákvæði frv., enda er það eitt af hlutverkum bankans að stuðla að greiðari og öruggari greiðslumiðlun í landinu, svo og við útlönd. Í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, sem áður er vitnað til, er gert ráð fyrir að þau kerfi sem Seðlabanki Íslands tilnefnir og falla undir ákvæði frv. verði tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Í 4. gr. kemur fram meginregla frv., þ.e. að öll greiðslufyrirmæli svo og greiðslujöfnun skuli að öllu leyti vera bindandi gagnvart þriðja manni og það jafnvel þótt bú þátttakandans, sem fyrirmælin gaf, sé tekið til gjaldþrotaskipta. Það skilyrði er þó sett að slík greiðslufyrirmæli skuli því aðeins njóta verndar að þau séu komin til greiðslukerfisins áður en úrskurður er kveðinn upp um gjaldþrot og tilkynning þar um hefur sannanlega borist til greiðslukerfisins.

Í 5. gr. er kveðið skýrt á um að uppgjörsaðila sé heimilt að nota allar innstæður eða verðbréf til uppgjörs á skuldbindingum þátttakenda í samræmi við ákvæði frv.

Í 6. gr. er kveðið á um skyldur héraðsdómara að tilkynna þegar í stað til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands þegar úrskurður um gjaldþrot á búi stofnunar, sem frv. tekur til, hefur verið kveðinn upp. Jafnframt er skylt samkvæmt ákvæðum áðurnefndrar tilskipunar að miðla slíkum upplýsingum til hlutaðeigandi yfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og nánar er kveðið á um í þessari grein frv.

Frv. er ætlað að taka til greiðslukerfa sem starfrækt eru hér á landi, en samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu greiðslukerfi í 1. tölul. 2. gr. frv. verður a.m.k. einn þátttakendanna að hafa aðalskrifstofu sína hér á landi til þess að greiðslukerfið falli undir eða njóti verndar samkvæmt ákvæðum frv. Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar er þátttakendum þó heimilt að gerast aðili að greiðslukerfunum sem starfrækt eru, t.d. í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í 7. gr. er kveðið á um að þegar þannig standi á skuli fara um réttindi og skyldur þátttakenda í greiðslukerfi eftir lögum þess ríkis sem gildir um hlutaðeigandi greiðslukerfi sem hann er þátttakandi í. Það á við jafnvel þó að lög þess ríkis gildi ekki um gjaldþrotaskipti á búi þátttakandans.

Í 8. gr. er kveðið svo á að vernd sú sem frv. þetta veitir greiðslufyrirmælum og greiðslujöfnun skuli einnig ná til verðtrygginga sem þátttakendur setja til tryggingar á öruggu uppgjöri viðskipta á fjármálamarkaði.

Í 9. gr. er að finna lagaskilgreiningu, lagaskilareglu, en þar er kveðið svo á að um veðtryggingar í rafbréfum skuli að öllu leyti fara samkvæmt lögum þess ríkis þar sem rafræn eignaskráning verðbréfanna fer fram, en um það efni gilda nú hér á landi lög nr. 131/1997, um rafræna eignaskráningu verðbréfa.

Í 10. gr. er að finna ákvæði sem leggur þá skyldu á þátttakendur að veita upplýsingar um í hvaða greiðslukerfum hann tekur þátt og þær helstu reglur sem gilda um kerfið. Nauðsynlegt er þannig að ávallt sé sem gagnsæjast hvernig greiðslumiðlun fer fram hverju sinni og hvaða skilyrði gilda um hana frá viðkomandi greiðslukerfi.

Í 11. gr. er áréttað að um samninga óbeins þátttakanda um aðild að greiðslukerfi sem starfar samkvæmt ákvæðum þessa frv. skuli fara eftir íslenskum lögum. Eðlilegt er að þegar skapist óvissa að þessu leyti ef slíkir aðilar geri samninga við lánastofnanir hér á landi sem geri þeim fært að senda greiðslufyrirmælin gegnum innlend greiðslukerfi sem frv. tekur til.

Í 12. gr. er að finna tilvísun þeirrar tilskipunar sem verið er að lögleiða með frv. Það er nýmæli að taka upp slík ákvæði í íslensk lög en í tilskipun Evrópusambandsins er ákvæði um að aðildarríkjum beri skylda til að hafa slíkar tilvísanir í lögum þeim sem sett eru til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunarinnar. Slík tilhögun eykur réttaröryggi en jafnframt er eðlilegt að af meginmáli laga megi sjá hverju sinni hvort um sé að ræða ákvæði sem sett eru til þess að lögleiða ákvæði tilskipunarinnar og hefur verið felld inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að gera frekari grein fyrir frv. því sem hér liggur fyrir á þskj. 23, um öryggi greiðslufyrirmæla og greiðslujöfnun í greiðslukerfum, og legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. að lokinni umræðunni.