Öryggi greiðslufyrirmæla

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:10:04 (162)

1999-10-07 12:10:04# 125. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A öryggi greiðslufyrirmæla# (EES-reglur) frv. 90/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta frv. er tiltölulega nýtt af nálinni og er best að ræðumaður játi það strax í byrjun að ég er ekki þaullesinn í þeim tilskipunum sem á að taka upp í réttinn, en þó vakna strax nokkrar spurningar sem ég vil leggja fyrir hæstv. ráðherra.

Það fyrsta er spurningin um það hvort þetta frv. taki einungis til lögaðila eða stofnana og komi þar af leiðandi ekki til skörun við lögin um gjaldþrotaskipti í þeim skilningi að einstaklingar geti verið beinir eða óbeinir aðilar að einhverjum slíkum greiðslumiðlunar- eða jöfnunarkerfum og hvort ekkert samspil sé annars vegar milli þeirra reglna sem verið er að taka upp og hins vegar hinna almennu laga um gjaldþrotaskipti nema það kemur beinlínis fram að þessi lög upphefji einhver tiltekin ákvæði laganna um gjaldþrotaskipti eins og riftunarákvæði eða annað slíkt.

Í öðru lagi þessu tengt, hvort þessi breyting kalli ekki á nauðsyn þess að endurskoða lögin um gjaldþrotaskipti. Ég á þá ekki bara við --- það er kannski best að spyrja hæstv. ráðherra að því --- ekki bara vegna þessara breytinga heldur einnig hins hvort ekki sé fyrirhuguð endurskoðun á hinum almennu gjaldþrotaskiptalögum. Maður hefur af og til rekist á það undanfarin ár að ýmis ákvæði þar orka tvímælis. Það má t.d. nefna þegar einstaklingar eiga í hlut og verða fyrir áföllum eða verða gjaldþrota af einhverjum ástæðum, þó þannig að þar sé ekki á nokkurn hátt um saknæmt atferli að ræða eða viðráðanlegar aðstæður af þeirra hálfu. Við þekkjum öll dæmi um að menn hafa lent í erfiðleikum sem eru utanaðkomandi eða fá ekki varist og lenda í því að verða persónulega gjaldþrota og sæta þá öllum þeim takmörkunum sem slíkt hefur í för með sér og þar á meðal algerri skerðingu á eignafrelsi og öðru slíku næstu tíu ár þar á eftir ef ég man rétt. Þessi spurning hefur oft komið upp og ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki hafi komið til álita annaðhvort í tengslum við þetta mál eða þá algerlega sjálfstætt að fara yfir og endurskoða þau lög.

Þetta hefur komið við sögu í ýmsum öðrum lagabreytingum á undanförnum árum, þar á meðal t.d. takmarkanir á rétti manna í öðrum lögum sem lent hafa í því að verða gjaldþrota. Mér er kunnugt um að t.d. efh.- og viðskn. hefur glímt mikið við það hvernig ætti þá að ganga frá slíkum ákvæðum hvað varðar möguleika manna til að vera í forsvari fyrir fyrirtæki, stofnanir eða hafa tiltekin löggilt réttindi með höndum á sviði atvinnurekstrar eða fjármálaumsvifa ef þeir hafa lent í slíkum málum. Ef þátttakendur í þessum greiðslumiðlunarkerfum, sem hér eiga í hlut, geta verið slíkir aðilar mundi það hugsanlega hafa einhver réttaráhrif eða vera í einhverjum tengslum við þau ákvæði annarra laga þar sem um slíka hluti er fjallað. Maður gæti þá farið að velta því fyrir sér, herra forseti, hvort það kallaði á að farið yrði yfir allt þetta svið á nýjan leik í kjölfar þessara breytinga og/eða hvort slík þörf sé ekki uppi hvort sem er að fara yfir þetta svið og endurskoða þessi ákvæði. Mér fyndist að ef þess væri kostur, nú tek ég fram að það kunna að vera á því ýmis vandkvæði, að æskilegt væri að reyna að greina meira á milli þeirra tilvika þegar menn lenda í greiðsluþroti og verða persónulega gjaldþrota af óviðráðanlegum ástæðum og þar sem ekkert saknæmt er á ferðinni og hinna tilvikanna þar sem öðru er til að dreifa og gera skýrari og skarpari greinarmun á stöðu manna eftir að gjaldþrotaskiptum lyki eftir því hver væri aðdragandi málsins. Á þessu kunna að vera ýmis vandkvæði en að mínu mati væri það þess virði að reyna að fara yfir það og skoða hvort einhver slík aðgreining gæti ekki átt rétt á sér.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég geri ráð fyrir því að málið fái vandaða skoðun og vonast til að þá verði m.a. þessir hlutir yfirfarnir af hv. þingnefnd þannig að þegar málið kemur aftur til okkar kasta fylgi því einhver skilagrein um það frá hv. nefnd að stærðarsamhengi hlutanna hafi verið skoðað og farið yfir það hvort þörf sé á frekara starfi að þessu leyti hvernig sem því yrði þá fyrir komið og hvað sem unnið yrði af hálfu ráðuneytis eða þingnefndar.