Öryggi greiðslufyrirmæla

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:20:50 (165)

1999-10-07 12:20:50# 125. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A öryggi greiðslufyrirmæla# (EES-reglur) frv. 90/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að margt í þessu er býsna snúið en ég er samt þeirrar skoðunar, eftir að hafa kynnt mér málið, að hér geti í fyrsta lagi verið um aðgerð að ræða sem sé til aukinnar hagkvæmni í viðskiptum og svo líka hins, mikils öryggis fyrir neytendur.

Ég held að það sé alveg skýrt og ótvírætt ef við lítum á 2. mgr. 2. gr. frv. sem segir hverjir geti þarna orðið aðilar að, að þá geti það ekki verið einstaklingar. En það er ekki skrýtið að spurt sé vegna þess að í c-lið þeirrar mgr. segir:

,,Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu samkvæmt lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.``

Hins vegar þarf, samkvæmt tilskipun sem kom frá Evrópusambandinu ekki alls fyrir löngu og við leiddum í lög ef ég man rétt 1996 eða 1997, slík starfsemi að vera í hlutafélögum. Þannig að það þarf í öllum tilfellum að vera um slíkan rekstur, hlutafélög, að ræða. Ég held að við getum verið alveg öruggir í þessu, enda stendur þarna sem fyrirsögn 2. mgr. að um stofnun sé að ræða. Ég tel því alveg ótvírætt að þarna sé ekki um einstakling að ræða og ég held að það væri líka mjög óvarlegt að hafa það þannig. Það er miklu öruggara að fylgjast með lögaðilum hvað þetta snertir en einstaklingum.