Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:22:59 (166)

1999-10-07 12:22:59# 125. lþ. 5.10 fundur 25. mál: #A innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta# (EES-reglur) frv. 98/1999, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:22]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um innstæðutryggingar og greiðslukerfi fyrir fjárfesta, á þskj. 25 sem jafnframt er 25. mál þingsins.

Frumvarp þetta er samið í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Tilskipunin kveður á um samræmdar reglur um lágmarksvernd fyrir fjárfesta sem eiga kröfu á hendur fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir í tengslum við viðskipti með verðbréf gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis.

Tilskipunin kemur í framhaldi af tilskipun um innstæðutryggingar, sem sett var árið 1994. Sú tilskipun tryggir innstæðueigendur upp að vissu marki gegn greiðsluerfiðleikum viðskiptabanka og sparisjóða. Lögum um viðskiptabanka og sparisjóði var breytt árið 1996, m.a. til að uppfylla ákvæði innstæðutryggingatilskipunarinnar. Nú starfa tveir tryggingarsjóðir, Tryggingarsjóður viðskiptabanka og Tryggingarsjóður sparisjóða, sem tryggja innstæðueigendur gegn greiðsluerfiðleikum og starfa samkvæmt lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Sjóðunum er heimilt að starfa í tveimur deildum, innstæðudeild, sem tryggir innstæður, og lánadeild sem getur veitt lán í því skyni að styðja við rekstur innlánsstofnunar. Tryggingarsjóður sparisjóða hefur nýtt sér þessar heimildir og starfar í tveimur deildum en ekki Tryggingarsjóður viðskiptabanka.

Í frumvarpi þessu er lagt til að Tryggingarsjóður viðskiptabanka, innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða og nýtt tryggingakerfi fyrir fjárfesta renni saman í einn sjóð, Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Með því yrði til einn heildstæður tryggingarsjóður sem verndaði innstæðueigendur og viðskiptavini lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu gegn greiðsluerfiðleikum þessara fyrirtækja. Helstu rök að baki slíkum samruna eru að bankastarfsemi og verðbréfastarfsemi er orðin mjög samofin. Þá er hagstætt út frá tryggingarfræðilegu sjónarmiði að stækka sjóðinn og dreifa áhættu auk þess sem rekstrarkostnaður yrði minni. Flókið samspil tveggja eða fleiri kerfa er heldur ekki fýsilegt frá sjónarmiði neytendaverndar.

Með frumvarpinu er lagt til að ný lög verði sett um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta í stað kafla í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði um tryggingarsjóði innlánsstofnana. Þetta er gert þar sem fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir eru einnig aðilar að sjóðnum. Þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að innstæðutryggingum eru hins vegar byggð á núgildandi ákvæðum í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Frumvarpið er að nokkru byggt á dönskum lögum en Danir hafa nú nýlega samþykkt lög sem byggjast á svipaðri hugmynd og hér er lögð til.

Helstu efnisatriði frv. eru þessi:

Nýr tryggingarsjóður, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, verður til með sameiningu Tryggingarsjóðs viðskiptabanka, innstæðudeildar Tryggingarsjóðs sparisjóða og nýs tryggingakerfis fyrir fjárfesta.

Sjóðurinn verður sjálfseignarstofnun með sex manna stjórn og starfar í tveimur sjálfstæðum deildum, innstæðudeild og verðbréfadeild. Heimilt er að lána fé á milli deildanna að vissu marki.

Heildareign innstæðudeildar sjóðsins skal ávallt nema a.m.k. 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum. Eignir verðbréfadeildar skulu vera a.m.k. 100 millj. kr.

Viðskiptavinur aðildarfyrirtækis getur krafið sjóðinn um greiðslu innstæðu, verðbréfa og reiðufjár sem hann hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu á í samræmi við þá skilmála er gilda og aðildarfyrirtækið er að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna tafarlaust af hendi eða í nánustu framtíð vegna greiðsluerfiðleika eða ef það hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Ef eignir sjóðsins hrökkva ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár skal greiðslu úr sjóðnum skipt þannig milli kröfuhafa að heildarkrafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. verði bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til. Sjóðnum er heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum hrökkvi eignir sjóðsins ekki til.

Lagt er til að viðskiptabönkum og sparisjóðum verði heimilt að stofna sjálfseignarstofnanir, öryggissjóði, sem allir viðskiptabankar eða allir sparisjóðir skulu vera aðilar að í því skyni að tryggja fjárhagslegt öryggi viðskiptabanka og sparisjóða. Nú er starfandi lánadeild Tryggingarsjóðs sparisjóða sem hefur sambærilegar heimildir.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.