Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:36:19 (171)

1999-10-07 12:36:19# 125. lþ. 5.10 fundur 25. mál: #A innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta# (EES-reglur) frv. 98/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni nokkuð stórt mál satt best að segja. Ég hafði ekki áttað mig á því fyrr en ég fór að lesa það betur að í því fælist svona viðamikil breyting á því fyrirkomulagi sem verið hefur. Ég gaf mér þegar ég byrjaði að skoða frv. að hér væri fyrst og fremst á ferðinni aðgerð til að tryggja það sem samkvæmt orðanna hljóðan stendur, þ.e. að um væri að ræða frv. til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. En í ljós kemur að verið er að taka þann tryggingarsjóð eða það tryggingakerfi sem hefur verið fyrir almennar sparifjárinnstæður manna í bönkum og sparisjóðum undir þetta fyrirkomulag með sameiningu.

Það vekur strax ýmsar spurningar í mínum huga, sumar hverjar þær sömu og hv. þm. Pétur Blöndal kom hér með. Við fyrstu sýn undrast ég satt best að segja að sjá þátttöku viðskiptabankanna og sparisjóðanna í gegnum nefndarstarf sem að baki liggur og að afurðin af því skuli vera samkomulag um þetta fyrirkomulag. Gott og vel, ég geri ráð fyrir að þeir menn séu klárir fyrir sinn hatt og geti passað upp á hagsmuni bankanna. En ég hefði í þeirra sporum verið mjög varkár, farið varlega í því að leggja þetta saman inn í einn sjóð af ýmsum ástæðum.

Hin fyrsta er sú að ég held að ein aðalástæðan fyrir því að almenningur velur, þeir sem það gera, að leggja sparifé sitt inn í bankana, sé að menn telji það tryggast og öruggast þar og áhættuna minnsta. Þeir sem eru tilbúnir til að taka meiri áhættu en eru þá kannski jafnframt á höttum eftir meiri ávöxtun, hærri vöxtum, velja aðrar leiðir, fara með sparnað sinn yfir í hlutabréf eða inn í einhverja verðbréfasjóði o.s.frv.

Ég hef þá tilfinningu að þetta geti haft áhrif í þá átt, a.m.k. sálræn áhrif, að fólk hætti að gera þennan greinarmun á. Enda að mörgu leyti eðlilegt ef sami aðilinn, sami sjóðurinn tekur til við að tryggja allt heila klabbið.

Ég bendi á það í öðru lagi að í okkar tilviki, á Íslandi enn sem komið er a.m.k., erum við að leggja þarna saman jafnólíka aðila og einstök verðbréfafyrirtæki eða aðra slíka aðila og ríkisviðskiptabanka í 100% eða svo til 100% eigu ríkisins. (Gripið fram í: Vonandi ekki lengi.) Vonandi ekki lengi, segir hv. þm., en enn sem komið er er það þó þannig að ríkið á yfirgnæfandi hlut, og það hafa menn auðvitað tekið þrátt fyrir allt sem ákveðna tryggingu í sjálfu sér að bakhjarlinn var þessi, eigandinn var þessi.

Ég hefði haft áhyggjur af slíkri breytingu í sporum viðskiptabankanna og held ég þó að af nógu sé að taka fyrir í þeirra tilviki. Margir eru að spá því að breytingar í viðskiptaumhverfinu geti átt eftir að sækja hart að bönkunum og hinni hefðbundnu þjónustu þeirra á komandi árum. Menn nefna þar hluti eins og netið og viðskipti þar og menn nefna gjörbreytt umhverfi hvað varðar fjármálaþjónustu, fleiri aðilar eru komnir inn á það svið, verðbréfamarkaðinn og mjög harðnandi samkeppni um sparifé manna.

Ég tek undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að að mörgu leyti hefði verið eðlilegra að reyna að stuðla að sameiningu þeirra tryggingarsjóða viðskiptabanka og sparisjóða sem fyrir eru annars vegar og þá hins vegar einhvers konar sjálfstæðri tryggingu á verðbréfaviðskipti eða tryggingakerfi fyrir fjárfestana hins vegar.

Í grg. frv. eru nokkrar upplýsingar um fyrirkomulag í öðrum löndum og það er þakkarvert. Ég hef ekki haft tíma til að skoða það náið og þaðan af síður að afla gagna víðar að. En þar er þó tilgreint það fyrirkomulag sem í gildi er, að mér sýnist í einum fjórum löndum, þ.e. Belgíu, Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Og ef ég hef lesið rétt þá er í þremur af fjórum tilvikum ekki um að ræða það fyrirkomulag sem hér á að taka upp, þ.e. það er aðeins í Danmörku sýnist mér sem um einn sameiginlegan sjóð eigi að vera að ræða.

Hér segir að í Belgíu hafi verðbréfafyrirtæki verið skylduð til að greiða í tryggingarsjóð, væntanlega sérstakan tryggingarsjóð fyrir þau og að tryggingin nái til allra fjárfesta.

Um Noreg segir, með leyfi forseta:

,,Frá 1985 hefur verið í gildi reglugerð í Noregi um vernd viðskiptavina verðbréfafyrirtækja sem hefur stoð í lögum um verðbréfaviðskipti. Verðbréfafyrirtæki skulu leggja fram vátryggingu eða bankaábyrgð til að vernda viðskiptavini gegn tjóni sem verðbréfafyrirtækið veldur þeim með starfsemi sinni.``

Með öðrum orðum sjálfstætt tryggingakerfi fyrir viðskipti með verðbréfahlutann.

Og um Svíþjóð segir, með leyfi forseta:

,,Í nýsamþykktum lögum um þetta efni kemur fram að stofnaður verði sérstakur tryggingarsjóður fyrir verðbréfafyrirtæki,`` o.s.frv. En sjálfstætt tryggingafyrirkomulag fyrir þann hluta fjármálaviðskiptanna.

Aðeins í Danmörku virðist þetta fyrirkomulag vera valið og það er nýtilkomið af því að Danir hafa ekki samkvæmt því sem hér kemur fram haft sambærilegar tryggingar fyrr en á síðasta ári.

Nú er það að vísu ævagamall siður að sníða íslenska löggjöf að breyttu breytanda gjarnan eftir þeim dönsku, ef þau eru fyrir hendi, en mér er til efs að það sé endilega sjálfgefið í þessu tilviki að við fylgjum í fótspor þeirra. Ég vek athygli á því sem segir hér neðst á bls. 10 og efst á bls. 11 um einmitt danska fyrirkomulagið og ástæður þess að Danir tóku þetta upp. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Danir huguðu einnig að öðrum möguleikum,`` --- þ.e. öðrum möguleikum en þeim að búa til einn allsherjartryggingarsjóð fyrir viðskiptabanka, sparisjóði og fjárfesta eða verðbréfahlutann. --- ,,Það var mat vinnuhóps sem vann að gerð tillagna um tilskipunina að trygging eða ábyrgð tryggði ekki fullnægjandi vernd.`` --- Gott og vel. --- ,,Einnig taldi vinnuhópurinn að sérstakur sjóður fyrir verðbréfafyrirtæki þyrfti að vera mun stærri en ef einn sjóður tæki sameiginlega á málum innlánsstofnana og verðbréfafyrirtækja.``

Er þar hundurinn grafinn? Að ósköp einfaldlega vegna þess að verðbréfahlutinn nær meiri tryggingu og minna þarf að leggja fyrir þar ef menn setja þetta allt inn í eina heildarpúllíu? En er þá ekki í raun verið að segja að það sé á kostnað þeirrar tryggingar sem fyrir er hjá innlánsstofnunum, viðskiptabönkum og sparisjóðum? Mér er nær að halda það. Annars ætti þessi sjóður ekki að þurfa að vera svona miklu stærri verðbréfamegin ef þau væru í sjálfstæðu hólfi.

Þetta eru hlutir sem mér finnst þurfa að huga mjög vel að. Auðvitað geta verið á því slíkar skýringar að ákveðin hagræðing stærðarinnar og meiri áhættudreifing þýði að menn telji að sjóðurinn þurfi þá ekki að vera jafnstór, og einn öflugur sjóður sem dreifir þá áhættunni yfir allt sviðið, þ.e. yfir viðskiptabankana og verðbréfafyrirtækin, komi sterkar út. En það verður að gæta þess alveg sérstaklega, sýnist mér, að ekki sé verið að flytja þarna áhættuna til og að þetta sé tryggingafræðilega rétt, ef maður má orða það svo, eins og gjarnan er talað um hlutina þegar lífeyristryggingar eða slíkar tryggingar eiga í hlut, að þetta sé tryggingafræðilega rétt og ekki sé verið að flytja áhættu af einum þarna yfir á annan. Það væri ekki skynsamleg ráðstöfun og ekki sanngjörn gagnvart þeim sem vilja treysta á hefðbundin viðskipti við venjulegar innlánsstofnanir.

[12:45]

Herra forseti. Ég leyfi mér því allra náðarsamlegast að velta upp þessum spurningum eða þessum hugleiðingum og hafa uppi ákveðna fyrirvara á því fyrirkomulagi sem hér á að gera. Hafi verið ástæða til þess að hv. efh.- og viðskn., sem að vísu nýtur mikils álits hér sem vonandi fer ekki neitt dvínandi þrátt fyrir nokkrar mannabreytingar sem orðið hafa í nefndinni, skoðaði vel hin fyrri mál sem við vorum að ræða, þá held ég að það sé nú alveg sérstök ástæða til að fara rækilega yfir þetta og huga mjög vel að því hvort þetta sé rétt fyrirkomulag eða hvort við ættum að skoða það fyrirkomulag sem er annars staðar, þ.e. sjálfstæðan, gjarnan einn tryggingarsjóð fyrir innlánsstofnanir, viðskiptabanka og sparisjóði, en einhverja aðra vernd, annaðhvort sjóðsvernd eða tryggingu á hinu sviðinu.

Í raun er það þannig að í gildandi lögum er náttúrlega allt fullt af ákvæðum sem eiga að draga úr áhættunni og tryggja öryggi viðskiptavina þessara aðila. Það eru mjög ströng ákvæði, ekki satt, um þær kröfur sem aðilar verða að uppfylla til að geta haft svona viðskipti með höndum. Þau eru ætluð til að draga úr áhættu á því að viðskiptavinirnir eða þeir sem þessir aðilar þjónusta verði fyrir skakkaföllum og hremmingum. Maður getur spurt, er það samt sem áður og þrátt fyrir allt þannig að í verðbréfaviðskiptunum eða þegar fjárfestar eiga í hlut þá þurfi jafnframt tryggingu, af því að hitt kerfið haldi ekki þrátt fyrir góðar og miklar tilraunir til að tryggja svo sem kostur er að skúrkar komist ekki inn í þessi viðskipti og eigi ekki greiða leið að því að hlunnfara viðskiptavini sína? Auðvitað geta alltaf orðið slys, það vitum við. Þá er líka að hinu að hyggja að grundvallarmunur er á því og á að vera og mönnum á að vera það ljóst að menn eru að taka meiri áhættu ef þeir velja þann farveg fyrir sparnað sinn að fara út í hlutafjárkaup eða verðbréfaviðskipti. Mér er til efs að hyggilegt sé að gera neitt það sem e.t.v. dregur úr þeim mun sem eðlilegt er að menn geri á þessu tvennu, þ.e. að leggja sparnað sinn inn í virta og viðurkennda innlánsstofnun, banka, eða hinu að taka meiri áhættu í von um kannski meiri ávöxtun eftir öðrum leiðum.

Herra forseti. Ég áskil mér allan rétt í þessu efni til að halda því sjónarmiði mínu til haga að þarna þurfi menn að gá vel að sér og skoða málin mjög vel. Hér er um frumsmíð að ræða og umtalsverða breytingu á því fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði og ég held að það hljóti að krefjast þess að farið sé rækilega yfir málin.