Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:48:18 (172)

1999-10-07 12:48:18# 125. lþ. 5.10 fundur 25. mál: #A innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta# (EES-reglur) frv. 98/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:48]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt, hér er um nokkra frumsmíð að ræða þó að hún byggi nú reyndar á gömlum merg, þ.e. á þekktu fyrirkomulagi sem var öðruvísi en hér er sett fram, þ.e. á því fyrirkomulagi að vera með tryggingarsjóðina inni í lögunum um viðskiptabanka og sparisjóði.

Aðalatriði málsins hlýtur að vera þetta, og ég vonast til að við séum sammála um það, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að við þurfum að auka tryggingaverndina frá því sem nú er. Ég tel að við séum að gera það vegna þess að við erum að sameina annars vegar Tryggingarsjóð sparisjóða og hins vegar Tryggingarsjóð viðskiptabankanna. Stærri og öflugri sjóður verður til og þar af leiðandi dreifum við áhættunni meira og um leið aukum við trygginguna fyrir innstæðueigendurna. Ég held að við getum verið sammála um þetta og mér fannst ekki vera athugasemdir hjá hv. þm. um þennan þátt málsins.

Þá komum við að hinum þættinum sem ég heyri að áhyggjur manna beinast nokkuð að sem er verðbréfadeild sjóðsins vegna þess að sjóðurinn er tvískiptur, annars vegar í innstæðudeild og hins vegar í verðbréfadeild. Það er hins vegar alveg skýrt að deildirnar er fjárhagslega algjörlega sjálfstæðar. En komi til þess að verðbréfadeildin geti hugsanlega ekki staðið undir skuldbindingum sínum þá er heimild til þess að lána þar á milli. Við erum ekki með þeim hætti þá að ganga beinlínis á þær tryggingar sem fyrir eru hjá innstæðudeildinni heldur værum við að auka um leið tryggingar fyrir þá sem hafa tekið áhættuna að vera með tryggingar sínar gagnvart verðbréfadeildinni.

Ég geri mér grein fyrir því að þar erum við þá að ganga lengra heldur en að láta deildina eina og sér standa undir þeim tryggingum.

Þetta þurfum við að skoða og ég er algjörlega opinn fyrir því að þetta verði skoðað í efh.- og viðskn. og menn eigi að horfa á þetta heildstætt. En megintilgangurinn er sá að hafa kostnaðinn sem minnstan af því að reka þessar innstæðutryggingadeildir sem við erum með og við teljum okkur ná niður kostnaði með því að hafa það fyrirkomulag sem Danirnir byggðu upp á sínum tíma. En hitt er leið. Hún kostar meira, en við verðum að meta kostnaðinn á móti áhættunni í þessu og ég tek algjörlega undir það og það er það sem nefndin á að skoða.