Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:52:08 (173)

1999-10-07 12:52:08# 125. lþ. 5.10 fundur 25. mál: #A innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta# (EES-reglur) frv. 98/1999, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:52]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Nokkrar vangaveltur í tilefni þess frv. sem hér er lagt fram. Ég vil taka undir með fyrri ræðumönnum að það er einkar mikilvægt, ekki síst í ljósi þeirra öru breytinga og þeirrar öru þróunar sem átt hefur sér stað á þessum vettvangi, þ.e. fjármálalegra viðskipta, og ekki síst í bankakerfinu. Rétt er að rifja það upp að ekki fyrir margt löngu voru tryggingar af þessu tagi satt að segja ekki jafnnauðsynlegar og eru nú, einfaldlega vegna þess að ríkissjóður stóð að baki langsamlega stærstu innlánsstofnunum og viðskiptabönkum sem í landinu hafa verið. Því er einkar nauðsynlegt að menn horfi á þessa gjörbreyttu stöðu sem jafnast á við byltingu ef áform núverandi ríkisstjórnar og hæstv. viðskrh. ná fram að ganga um sölu stærstu innlánsstofnana og viðskiptabanka í landinu. Þætti mér nú vænt um það, herra forseti, að viðskrh. hæstv. yrði viðstaddur umræðuna.

Herra forseti. Í ljósi þessarar gjörbreyttu stöðu og ljósra áforma ríkisstjórnarinnar um sölu Búnaðarbanka og Landsbanka og raunar þar með einkavæðingu alls fjármálakerfisins hér á landi, þá væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. ráðherrans til þess hvað hann telur að mundi gerast ef svo færi að stórar innlánsstofnanir á borð við Búnaðarbankann eða Landsbankann lentu í greiðsluerfiðleikum, nálguðust gjaldþrot, og að þeir sjóðir sem eru lagðir til stæðu ekki nægilega sterkir til þess að rétta hlut þeirra sem eiga fjármagn í þessum bönkum.

Ég er einfaldlega að vísa til þess sem gerst hefur í hinum vestræna heimi á liðnum árum. Í hinu stóra markaðskerfi Bandaríkjanna þekkjum við það, t.d. þegar sparisjóðakerfið þar riðaði til falls fyrir ekkert margt löngu. Og í Noregi sömuleiðis. Ég vek athygli á því að þær innstæðutryggingar sem hér er rætt um munu ekki endilega bæta að fullu --- og ekki gert ráð fyrir því --- það hugsanlega tjón sem sparifjáreigendur yrðu fyrir vegna greiðsluerfiðleika eða hugsanlega gjaldþrota banka eða sparisjóða.

Því spyr ég hvort hæstv. viðskrh. líti þannig til að þrátt fyrir að einkavæðing hefði átt sér stað í viðskiptabönkunum, hinum stóru, væri ríkissjóður eftir sem áður pólitískt og siðferðilega ábyrgur fyrir þeim innstæðum sem þar væru þegar sleppti þeim tryggingum sem til væru í formi þeirra sjóða sem hér er lagt til og fleiri þátta.

Þetta er held ég mjög mikilvæg spurning, ekki eingöngu í ljósi þess frv. sem hér um ræðir heldur í ljósi þeirrar framtíðar sem hæstv. ráðherra er að skapa og vinna fyrir. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að ríkissjóður hafi pólitíska og siðferðilega bakábyrgð ef í harðbakkann slær þannig að fólk geti treyst því að þessir fyrrum ríkisbankar, þegar þeir verða einkavæddir, séu traustar stofnanir og muni skila þeim peningum til baka sem fólk hefur treyst þeim til að varðveita og ávaxta?

Þetta vildi ég segja. Að öðru leyti vil ég taka undir það að mjög mikilvægt er að efh.- og viðskn. og hið háa Alþingi í heild sinni fari mjög vandlega yfir frv., velti því fyrir sér í hve miklum mæli þessar bakábyrgðir eigi að vera. Það gefur auga leið, þó að menn tali stundum þannig að peningar komi af himnum ofan til þessara stofnana, þá eru það auðvitað viðskiptamennirnir, almenningur í landinu sem borgar brúsann. Því tek ég undir það, þó að ég geri það nú ekki mjög oft, að rétt er að gaumgæfa það mjög alvarlega sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan um þátt þessa frv. sem lýtur að tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Hvort að menn eigi að gera einhvern greinarmun --- hugsanlega glöggan --- á annars vegar hinum hefðbundnu viðskiptabönkum og hins vegar fjárfestum í hlutabréfum og verðbréfafyrirtækjum ýmiss konar sem í gegnum tíðina hafa sum hver ekki verið allt of stöndug og sum lent í verulegum vandkvæðum. Og hvort þarna eigi að gera greinarmun á og í hversu miklum mæli þá.

Ég held og vil taka undir það án þess að ég ætli að lengja umræðuna að menn vandi sig mjög við þessa lagasmíð, ekki aðeins út frá tæknilegum forsendum heldur hafi líka klára og kvitta pólitíska sýn á það landslag sem hér er verið að skapa og þetta frv. gegnir verulegu hlutverki í.