Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:59:09 (174)

1999-10-07 12:59:09# 125. lþ. 5.10 fundur 25. mál: #A innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta# (EES-reglur) frv. 98/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:59]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekkert lítið úr því að mjög mikilvægt er að menn vandi sig í þessu vegna þess að þarna gætu verið undir, ef illa færi á fjármagnsmarkaði, stór hluti af sparnaði manna í landinu.

En hv. þm. spurði einnar spurningar og hún gekk út á það hvað yrði ef um stórkostlegt gjaldþrot verður að ræða, hvernig gæti sjóðurinn staðið undir því. Hann tók þar tiltekna bankastofnun.

Ég vil ekki vera að velta því nákvæmlega fyrir okkur hvað gerist ef tiltekin bankastofnun fer á hausinn. Hins vegar er það svo að ef sjóðurinn getur ekki staðið fullkomlega undir öllum skuldbindingum, þá er gert ráð fyrir því að allir þeir sem eiga 1,7 millj. kr. inni í viðkomandi fyrirtæki, viðkomandi bankastofnun, fái það að fullu greitt. En síðan greiddist það sem umfram það er og eftir stæði hjá sjóðnum hlutfallslega ofan á þá upphæð. Þetta er reglan sem sett er. Síðan er gert er ráð fyrir því hvað sjóðurinn þurfi að vera með af peningum hverju sinni og hvað hann eigi að vera með hverju sinni til ráðstöfunar miðað við stærð kerfisins. Og vonandi lendum við ekki í allsherjar stóru gjaldþroti.