Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 13:31:03 (176)

1999-10-07 13:31:03# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[13:31]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Í lögum nr. 1. frá 1999 er bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að sjávarútvegsráðherra skuli skipa nefnd til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Endurskoðuninni skal lokið í síðasta lagi í ágúst árið 2001.

Í nál. meiri hluta sjútvn., sem birt var á þskj. 656 frá sama tíma, sagði orðrétt, með leyfi forseta: ,,Gerir meiri hlutinn ráð fyrir að nefndin verði skipuð á breiðum grunni.``

Sú spurning hlýtur að vakna hvort skipun nefndarinnar hafi verið á þeim breiða grunni sem lagt var upp með.

Fyrir alþingiskosningar í vor var mikið gert með það af hálfu stjórnarflokkanna að búið væri að samþykkja lög um nefnd sem endurskoða skyldi gallað fiskveiðistjórnkerfi. Þar yrði lagt upp með verulegar lagfæringar á alvarlegum göllum kvótabraskskerfisins eða fiskveiðistjórnarkerfisins eins og sjútvrh. orðar það. Um þannig málflutning má finna mörg dæmi í umræðum fyrir kosningar. Okkur í Frjálslynda flokknum er vel ljóst að krafa okkar að komast út úr þessu kvótabraskskerfi og móta markvissa stefnu í þá veru fellur kvótagreifunum í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkum afar illa í geð enda eiga margir þeirra eftir að ná út milljarða kvótabraskgróðanum sínum svo búa megi þannig að örlitlum lífeyrisvotti í ellinni eins og aðaltalsmaður þeirra sem nú eiga kvótann, sjálfur grátgreifinn, komst svo viðkvæmnislega að orði á aðalfundi LÍÚ fyrir fáum árum þegar kvótabrask og atvinnulausar byggðir í kjölfar kvótasölu bar á góma.

Hæstv. ráðherra hefur auðvitað um það fyrirmæli frá hæstv. forsrh. að skrifa aðeins bréf til tveggja flokka um að þeir komi með fulltrúa í endurskoðunarnefndina eða er þannig í pottinn búið, hæstv. sjútvrh.?

Spurt er að gefnu tilefni því ekkert fengum við í Frjálslynda flokknum bréfið en höfum áður séð bréf sem kunngerði þessa stefnu hæstv. forsrh. Bréf það er dags. 6. ágúst sl. og fjallar um nefnd sem ætlað er að endurskoða kosningalög og kjördæmaskipan. Í því segir meðal annars, með leyfi forseta:

,,Eðlilegt er að þingflokkur Samfylkingar og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs tilnefni hvor sinn fulltrúa í nefnd þessa.``

Af þessu má sjá að forsrh. fannst greinilega eðlilegt að marka þá stefnu strax að einungis Samfylkingin og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ættu fulltrúa í nefndum og aðrir ekki.

Herra forseti. Af þessu og því hvernig var unnið við skipun í nefnd þá sem kjósendum var sagt að yrði svokölluð ,,sáttanefnd`` er ekki hægt að ætla í ljósi ummæla sjútvrh. sjálfs að í neinu eigi að víkja af leið örlítilla lífeyrisgreiðslna sem fengnar verða með sölu gjafakvótans sægreifunum til handa. Nú virðist stefnan að sökkva skuli á sextugt dýpi fljótt og vel 4. og 8. lið tillagna um stefnu í byggðamálum en þar segir í 4. lið, með leyfi forseta:

,,Sköpuð verði skilyrði til þess að styðja sérstaklega aðgerðir á afmörkuðum svæðum þar sem veruleg röskun verður á atvinnuháttum og búsetu. Sérstaklega verði hugað að aðgerðum í byggðum þar sem atvinnulíf er fábreytt og útgerð á í vök að verjast.

Fram fari greining á möguleikum einstakra landshluta, meðal annars með tilliti til auðlindanýtingar, iðnaðar- og verslunar, fiskveiða- og vinnslu, samgangna og þjónustustarfsemi.``

Í 3. umr., 13. janúar sl., sagði þáverandi formaður sjávarútvegsnefndar, og núverandi varaformaður, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, orðrétt um stjórn fiskveiða, með leyfi forseta:

,,Öllum er ljóst að ýmsu er áfátt og hefur ávallt verið í löggjöf um stjórn fiskveiða sem menn þurfa að viðurkenna og menn þurfa að vera tilbúnir til að fara skipulega yfir það mál og af yfirvegun. Af þeim ástæðum er talið rétt að hrinda af stað endurskoðun laganna og lagt til að hún fari fram á næstu tveimur árum.``

Í stjórnarsáttmálanum er lofað að setja byggðamálin yfir til Framsóknar og má þá spyrja hvort stefna verði síðar að lagfærð í anda kosningastefnu Framsfl., sem bar yfirskriftina: Breytinga er þörf.

Þar sagði, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir að áfram verði byggt á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi en yfirskrift sjávarútvegsstefnu Framsfl. er: Breytinga er þörf.`` Síðan segir: ,,Það er vegna þess að alvarlegir ágallar hafa komið í ljós. Meginvandinn liggur í hinu frjálsa framsali og rannsóknir á orsökum búferlaflutninga leiða í ljós að óöryggi íbúanna um atvinnu sína og stöðu byggðarlagsins er ein stærsta orsökin og því þarf við endurskoðun laganna að ná fram breytingum þar á.``

Herra forseti. Í ljósi alls þess sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu kjósendum fyrir kosningar leyfi ég mér að lýsa vanþóknun minni á þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum við skipun nefndar um endurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna sem ég hef lýst.