Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 13:48:17 (181)

1999-10-07 13:48:17# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir gagnrýni hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um að óeðlilega sé hér að verki staðið, að óeðlilegt sé að útiloka fulltrúa Frjálslynda flokksins frá því starfi að endurskoða lög um fiskveiðar. Þetta er óeðlilegt, hvort sem málið er skoðað þröngt eða vítt.

Hvað fyrra atriðið snertir þá er óeðlilegt að útiloka þennan stjórnmálaflokk frá þessu starfi og kjósendur hans. Hátt í sjö þúsund manns sem mjög margir kusu hann einmitt á þeim forsendum að knýja á um breytingar á fiskveiðikerfinu.

Það leiðir að hinu atriðinu að skoða málið vítt, hvernig á að skipa í nefndir af þessu tagi. Þar á að búa svo um hnúta að fulltrúar sjónarmiða komist að borðinu. Hér er hins vegar reynt að úthýsa sjónarmiðum. Úthýsa óþægilegum sjónarmiðum. Það er kannski í því samhengi sem rétt er að skoða ummæli hæstv. ráðherra um hina pólitísku vigt. Þeim sem eru óþægilegir er vísað á dyr. Ég vil vekja athygli þingsins á því að þetta er ekki eina nefndin þar sem þessi háttur er hafður á. Nýlega var skipuð nefnd sem er að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga. Þar var okkar flokki, fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs úthýst. Við höfum skrifað hæstv. félmrh. og óskað eftir endurskoðun á því, en ég hvet til þess að þingið og ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína í þessu máli og skipan í nefndir yfirleitt.