Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 13:52:44 (183)

1999-10-07 13:52:44# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er dálítil umræða um hlut flokka á Alþingi. Nú er það svo að ég er í 26 manna flokki og líð ævinlega fyrir það. Þannig fengu þessir 26 þingmenn eingöngu þrjá ræðumenn í umræðu um stefnuræðu forsrh. á dögunum á meðan tveggja manna flokkur fékk að tala þrisvar. Það er því ýmislegt sem menn geta sagt skoðanir sínar á á hlutföllum flokkanna á Alþingi.

Varðandi skipun þessarar nefndar þá fellst ég alveg á þau rök sem hæstv. sjútvrh. færði áðan, þ.e. að 38 þingmenn fá þrjá af þeim þingmönnum sem eru skipaðir, af þessum fimm, og það eru akkúrat 13 á bak við hvern og síðan fá 25 tvo, þ.e. 12 á bakvið hvern. Það er svo aftur spurning hvort stjórnarandstaðan hafi ekki samráð sín á milli og upplýsi þá tvo sem eru sér í flokki um það sem kemur fyrir nefndina og hvað hún er að fjalla um. Það er aftur á móti þeirra vandamál.

Það er ekki ágreiningur um fiskveiðistjórnarkerfið. Ég held að það sé enginn sem óski eftir því að taka frekar upp sóknarmark í staðinn fyrir aflamark. Það er heldur ekki ágreiningur eða ekki mjög víðtækur ágreiningur um framsalið. Það er nauðsynlegt að flestra mati. Meginágreiningurinn er um eignarhaldið á veiðiheimildunum. Og það þarf að ná almennri sátt um eignarhaldið. Hvernig túlka á og framkvæma ákvæðið um að fiskstofnarnir í kringum landið séu sameign þjóðarinnar. Nefndinni er ætlað að ná víðtækri sátt meðal þjóðarinnar um þetta og það mun binda nefndarmenn í starfi sínu.