Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:01:29 (187)

1999-10-07 14:01:29# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að taka þetta mál upp. Ég held að mjög æskilegt sé að við ræðum mál af þessum toga og almennt um nefndaskipan.

Ég get þó ekki orða bundist vegna orðræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar hér áðan, sem talaði líkt og í þessu máli hljómaði ein rödd. Ég ætla svo sem ekkert að rekja það en við höfum heyrt margar raddir úr Sjálfstfl., og hinar ýmsu skoðanir, og allar held ég að þær séu góðar og gildar. Hins vegar liggur það líka fyrir að þær skoðanir fá ekki hljómgrunn í nefndinni. Það liggur fyrir af nefndarskipaninni.

Hins vegar er annað, virðulegi forseti, að það er dálítið merkilegt með þessa nýju ráðherra sem hafa nú sest í stóla að það er nánast hver einasti þeirra sem setur tilveruna meira og minna í nefnd. Það kemur varla upp vandamál að það sé ekki sett með einum eða öðrum hætti í nefnd. Það er eins og ekki sé hægt að leiða nokkurt mál til lykta nema það sé kallaður til einhver hópur manna. Það er eins og þessir menn hafi ekki nokkra einustu skoðun í nokkru einasta máli.

Í þessu máli er markmiðið að reyna að ná einhverri sátt. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að Frjálslyndi flokkurinn gaf sig út fyrir að hann hefði eitt markmið, hann var stofnaður utan um eitt markmið, það var að breyta skipan mála í sjávarútvegi hér á landi. Á bak við þennan flokk standa u.þ.b. sjö þúsund manns, sjö þúsund manns sem fylgja flokknum í þessu máli. Ég held, virðulegi forseti, að ekki sé hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að það sé mikilvægt að fulltrúi þessa kjósendahóps fái að tala í þessari nefnd.

Þess utan, virðulegi forseti, hefur mér fundist hálfbarnalegt að hlýða á stjórnarþingmenn tala líkt og að þessi nefnd sé á ábyrgð stjórnarandstöðunnar. Eins og það hafi verið hennar með einum eða öðrum hætti að koma sér saman um fulltrúa í nefndina. Þetta er nefnd sem hæstv. sjútvrh. skipar samkvæmt lögum með það markmið að ná einhverri sátt. Hún er á ábyrgð sjútvrh., hún er skipuð af sjútvrh. og hann getur ekki komið ábyrgð sinni á þessari klaufalegu skipan yfir á stjórnarandstöðuna. Það er ekki málefnalegt, virðulegi forseti.