1999-10-07 14:21:00# 125. lþ. 5.3 fundur 20. mál: #A úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði# beiðni um skýrslu frá viðskrh., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil gera þá grein fyrir atkvæði mínu að ég styð skýrslubeiðnina mjög eindregið og fagna henni. Ég tel að það sé sjálfgefið að þó að það taki eitthvað lengri tíma að vinna þetta starf þá eigi menn að taka sér hann. Úttektin sem Samkeppnisstofnun gerði á þessu sama máli 1994 var og er gagnmerk og til í ágætri bók sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. sé kunnugt. Sá var reyndar aðdragandinn að því máli að þegar samkeppnislög voru afgreidd á árinu 1993 náðist um það samkomulag að lokum að bæta við þau nefndu bráðabirgðaákvæði um að slík úttekt skyldi fara fram í staðinn fyrir það sem uppi voru hugmyndir um og reyndar fluttar af þeim sem hér talar, að inn í lögin sjálf kæmu beinlínis ákvæði sem tækju á þessum sömu hlutum. Skýrslan var hugsuð sem gagnagrundvöllur fyrir frekari umræður og eftir atvikum lagasetningu á þessu sviði. Síðan hefur því, því miður, ekki verið fylgt eftir en úttektin liggur fyrir og er tímabært að uppfæra hana og fá nýjustu upplýsingar um þá þróun sem síðan hefur orðið. Ég tel að í framhaldinu eigi menn svo, og einnig í ljósi umræðu sem orðið hefur um þessi mál að undanförnu, að skoða vandlega hvort ekki sé nauðsynlegt að grípa til ákveðinna lagabreytinga.