Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:51:18 (200)

1999-10-07 14:51:18# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst jafnskynsamlegt að þessi framkvæmd fari í lögformlegt umhverfismat eins og mér finnst óskynsamlegt að ætla sér að knýja framkvæmdina í gegn án þess. Sú tillaga sem hér er gerð er tillaga um ákveðinn feril til að ákveða framkvæmdir, hvort af framkvæmdum verði eða ekki. Sú tillaga hlýtur að sjálfsögðu að fela það í sér að menn séu reiðubúnir til þess að una þeirri niðurstöðu sem verður.

Þess vegna spyr ég hv. 1. flm.: Ef þessi tillaga yrði samþykkt og niðurstaðan af umhverfismatinu yrði jákvæð fyrir þessa framkvæmd, þ.e. Fljótsdsalsvirkjun, mun hún þá styðja framkvæmdina og una niðurstöðunni af þeim ferli framkvæmda sem hún er að leggja til?