Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:57:10 (205)

1999-10-07 14:57:10# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er vissulega flókið mál og auðvitað má fara fleiri en eina leið að því. Eins og ég vék að í ræðu minni hér að framan, ef þarf að gera einhverjar frekari lagabreytingar til að virkjunin fari í mat, þá er auðvitað hægt að gera þær breytingar ef vilji er fyrir hendi. Hingað til höfum við hins vegar verið að deila um þetta lögformlega mat og það liggja fyrir umsagnir frá aðilum í samfélaginu sem hafa til þess bæran rétt að gefa umsagnir um málið og mér þykir eðlilegt að knýja á um þetta mál til þrautar.

Ég hef svo sem hugleitt það líka hvort við ættum að leggja fram tillögu um að bráðabirgðaákvæði II verði fellt út úr lögunum. Þar með hefur mér fundist liggja fyrir einhvers konar viðurkenning á því að bráðabirgðaákvæði II gildi um Fljótsdalsvirkjun sem það gerir alls ekki. Eins og ég hef vikið að í máli mínu, þá var það aldrei hugsað sem undanþágu\-ákvæði fyrir Fljótsdalsvirkjun þó að það hafi verið notað sem slíkt núna í seinni tíð.

Ég vil bara að það sé alveg ljóst að ég er sátt við að fram fari mat á virkjunarkostum í landinu. Ég er ósátt við að Fljótsdalsvirkjun sé undanþegin því mati. Ég er á móti því að virkjað sé í þágu orkufrekrar stóriðju. Ég er á móti því að Fljótsdalsvirkjun verði keyrð í gegn þrátt fyrir þær leikreglur sem við höfum komið okkur saman um að gildi í samfélaginu.