Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:59:52 (207)

1999-10-07 14:59:52# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt upplýsingum mínum sem ég hef líka verið að afla mér í sumar, þá er þetta ekki svo einfalt að nægilegt sé að breyta heimildarlögunum frá 1981 því að það er líka í gildi samningur milli ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar frá 1982 um að Landsvirkjun framkvæmi þessa aðgerð, fari í þessa virkjun. Virkjunin hefur líka verið sett inn í lög um Landsvirkjun frá 1983, þar er hennar einnig getið. Þar á ofan er í gildi virkjunarleyfi frá 1991. Það sem mér þætti gaman að vita er hvernig þetta er í nágrannalöndum okkar. Ég hef verið að reyna að afla upplýsinga og ekki fengið. Er það eðlilegt að framkvæmdaleyfi af þessu tagi gildi um aldur og ævi jafnvel meðan framkvæmdum er slegið á frest, meðan enginn er að vinna í framkvæmdunum? Á þetta virkjunarleyfi að vera gildur pappír til eilífðarnóns? Mér finnst það óeðlilegt.

En eins og ég segi, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þetta er flókið mál. Ég held að ekki sé nóg að breyta heimildarlögum um raforkuver. Ég held að breyta þurfi miklu fleiri lögum ef á að fara slíka leið. Þess vegna höfum við ákveðið að knýja áfram á um þetta lögformlega umhverfismat. Enda má benda þingheimi á að orðalagið í bráðabirgðaákvæði II er ekki skilyrt að neinu leyti. Þar stendur einungis að framkvæmdir sem hafa fengið framkvæmdaleyfi fyrir 1. maí 1994 séu ekki háðar mati samkvæmt lögum þessum.

Mér finnst að velviljuð ríkisstjórn geti alveg túlkað þetta orðalag sem svo að framkvæmdin sé ekki skilyrðislaust undanþegin heldur sé hægt að koma með góðum vilja þessari framkvæmd í mat og túlka lögin þannig að ríkisstjórnin ákveði að gera framkvæmdina háða mati samkvæmt lögunum.