Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:04:41 (212)

1999-10-07 15:04:41# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar telur ekki þörf á því að fram fari lögformlegt umhverfismat á framkvæmdum vegna fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar. Í afstöðu sinni skýlir stjórnin sér á bak við undanþáguákvæði laga um umhverfismat, laga sem hafa ekki enn verið endurskoðuð þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða þar um og þær skyldur sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði leggur á herðar stjórnvöldum.

Svo virðist, herra forseti, sem ríkisstjórnin hrærist ekki í sömu tilveru og þorri íslensku þjóðarinnar. Vilji þjóðarinnar er skýr. 80% landsmanna eru þeirrar skoðunar að fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir eigi að sæta lögformlegu umhverfismati. Fólkið í landinu veit hvað klukkan slær í umhverfismálum en það veit ríkisstjórnin greinilega ekki.

Harkan sem hlaupin er í deiluna um Fljótsdalsvirkjun er algerlega á ábyrgð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Hefðu stjórnvöld axlað hina lýðræðislegu ábyrgð, gengið hreint til verks og heimilað lögformlegt umhverfismat vorið 1998, þegar sú þáltill. sem hér um ræðir var fyrst flutt á hinu háa Alþingi, væri því mati vísast lokið eða í þann veginn að ljúka. Nei, herra forseti, þannig kýs ríkisstjórnin ekki að starfa og er nú svo komið að þjóðin skiptist í tvær fylkingar í afstöðu sinni til Fljótsdalsvirkjunar, fylkingar sem virðast í fljótu bragði ekki finna neinn grundvöll til samskipta. Í stað þess að leita sátta og finna samskiptagrundvöll byggðan á leikreglum lýðræðisins hefur þjóðinni verið stillt upp í andstæðar fylkingar, þéttbýli gegn dreifbýli, íbúar suðvesturhornsins gegn Austfirðingum.

Það er ábyrgðarhluti, herra forseti, að efna til djúpstæðra deilna eins og raun ber vitni. Mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar verður að standast gildandi lög í öllum atriðum. Forsenda þess að þjóðin geti sæst á niðurstöðu í deilunni um Fljótsdalsvirkjun er að hún þekki líklegar afleiðingar virkjunarinnar á náttúru landsins og geti neytt þess sjálfsagða andmælaréttar sem gildandi lög kveða á um. Sá réttur er í vitund almennings orðinn órjúfanlegur hluti leikreglna sem tryggja lýðræðislega og upplýsta meðferð mála sem þessara í samfélaginu. Það er kjarni á lögformlegu umhverfismati.

Það nægir einfaldlega ekki, herra forseti, að leggja væntanlega skýrslu Landsvirkjunar um umhverfisáhrif virkjunarframkvæmdanna til grundvallar ákvörðuninni um áframhaldandi framkvæmdir á Fljótsdal.

Á stundum má skilja umræðuna um Fljótsdalsvirkjun sem svo að tal um viðhorfsbreytingu þjóðarinnar í náttúruverndarmálum sé eins og hvert annað blaður sem hafi aðeins þann tilgang að drepa málinu á dreif. Svo er að sjálfsögðu ekki. Almenn umræða liðinna missira um Fljótsdalsvirkjun færir okkur heim sanninn um að grundvallarbreyting hefur orðið á liðnum áratug á viðhorfi Íslendinga til náttúruverndar og til umhverfismála. Sú breyting kemur m.a. glöggt fram í niðurstöðum viðhorfskönnunar um náttúru, þjóðerni og umhverfisstefnu á Norðurlöndunum sem gerð var árið 1997 í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi. Samkvæmt niðurstöðum þeirrar könnunar, sem er að því er ég kemst næst sú eina sinnar tegundar sem gerð hefur verið hér á landi, segist þorri Íslendinga viljugur í að beita sér í umhverfismálum, málaflokki sem til þessa hafi ekki verið nógu vel sinnt af stjórnmálamönnum. Meiri hluti fólks telur náttúrunni ógnað af manna völdum og þorri svarenda vill leggja sitt af mörkum til þess að tryggja umhverfisvernd í verki. Þetta má lesa í riti um helstu niðurstöður rannsóknarinnar sem norræna ráðherranefndin gaf út fyrr á þessu ári.

Verkefni Alþingis og ríkisstjórnar er að ná sátt um leikreglurnar sem lögformlegt umhverfismat kveður á um og sýna lýðræðislegt þrek og vilja til þess að framfylgja þeim. Það er hvorum tveggja, andstæðingum og fylgjendum virkjunarstefnu stjórnarinnar til framdráttar. Að öðrum kosti hefur friðurinn verið rofinn. Flestum ætti að vera ljóst að deilan um Fljótsdalsvirkjun markar upphaf breyttra tíma hér á landi. Menn skyldu ekki vanmeta þá grundvallarbreytingu sem orðið hefur á viðhorfi þjóðarinnar til náttúrunnar og nýtingar hennar.