Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:09:22 (213)

1999-10-07 15:09:22# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Hvað varðar þessa tillögu um mat á umhverfisáhrifum, þá er hún samhljóða tillögu sem flutt var fyrr á árinu eða í júní sl. og tjáði ég mig þá um afstöðu mína til hennar og ætla svo sem ekki að endurtaka það sem þar kom fram að öðru leyti en því að undir lok umræðunnar sagðist ég telja mikilvægt að sátt næðist um umhverfismál á Íslandi og við værum að reyna að ná sátt í mörgum stórum málum. Umhverfismál verða að mínu mati og margra annarra mál málanna um alla Evrópu og heimsbyggðina á næstu árum.

Í síðasta mánuði fór umhvn., sem ég á sæti í, ásamt iðnn. austur á Hérað og sótti þar m.a. fund með heimamönnum og mjög mörgum sérfróðum aðilum bæði með og móti virkjunum, mönnum frá Landsvirkjun, Orkustofnun og frá náttúruáhugasamtökum og atvinnusamtökum. Mjög margt áhugavert kom fram á ráðstefnunni. Ég punktaði hjá mér og skrifaði alllanga fundargerð á fundinum og hef verið að lesa það yfir. Þar eru nokkur atriði sem mig langar að drepa á sem sérstaklega standa upp úr í mínum huga.

Sú fyrsta er að Fljótsdalsvirkjun, eins og hún er fyrirhuguð, nægir ekki fyrir fyrsta áfanga álvers á Reyðarfirði. Það Eyjabakkalón sem við erum að deila um og náttúruverndarsinnar eru að kappkosta að fá metið samkvæmt lögum dugar ekki fyrir þeim 25% áfanga, fyrsta áfanga fyrirhugaðs álvers. Til þess að hægt sé að reisa þann fyrsta áfanga þarf að auki að leiða línu frá Kröflu eða Bjarnarflagi og leggja línu yfir hálendið og slíkt krefst að sjálfsögðu umhverfismats eða þá að stækka þarf lónið og hækka virkjunina um 3 eða 4 metra sem er marktæk breyting og krefst þess vegna líka umhverfismats. Menn eru að taka út þessa erfiðu umræðu við almenning í landinu verandi ekki einu sinni með þessari virkjun með nægilega raforku fyrir fyrsta áfanga fyrirhugaðs álvers. Þetta finnst mér ekki hafa komið nægilega fram í umræðum og vildi þess vegna undirstrika þetta sérstaklega.

Lög um mat á umhverfisáhrifum eru kannski ekki gallalaus og það kom líka fram í umræðum á fundinum á Héraði að þar væri ýmislegt sem þyrfti að endurskoða og ég get alveg tekið undir það. Mér finnst ekki síst að taka þurfi mið af því hvernig sambærileg lög eru í nágrannalöndum okkar og mér skilst að þar hafi orðið breytingar sem ég tel mjög mikilvægt að við kynnum okkur og athugum hvort ekki þurfi að breyta íslenskum lögum hvað þetta varðar.

Ég vil hins vegar gefa hæstv. iðnrh. það hrós að hann hefur sett á stofn nefnd um rammaáætlun um virkjanir og forgangsröð. Mér finnst það afar stórt og mikilvægt skref. Þetta er 15 manna hópur sérfræðinga sem á einmitt að reyna að sætta sjónarmið á þennan hátt sem ég er að mælast til. Ég vildi óska þess að menn sæju að sér og settu Fljótsdalsvirkjun inn í það sama ferli af því að það þykir mér vera viturra manna háttur og það sýnir sig að hæstv. iðnrh. skilur það í raun að best er að standa þannig að verki.

Við yfirferð á ræðum þingmanna, þegar frv. um mat á umhverfisáhrifum var til umfjöllunar á þinginu í vor, kemur hvergi fram að bráðabirgðaákvæðið sem sagt er að undanþiggi framkvæmdirnar umhverfismati, það kemur hvergi fram í umræðum á þinginu, og ég hef lúslesið þær, að það ákvæði sé sett inn vegna þessarar virkjunar eða annarra virkjana yfirleitt. Það kemur hvergi fram í umsögnum sem umhvn. fékk til sín á þessum tíma um, áramótin 1992/1993, að náttúruverndaraðilar eða virkjunarsinnar séu að óska eftir þessu bráðabirgðaákvæði eða tjá sig um það vegna þess að það var hvergi að finna í því frv. sem sent var út til umsagnar. Ég tel því í raun óskiljanlegt, hafandi reynt að skilja það, hvernig þetta ákvæði fór inn í lög um mat á umhverfisáhrifum. Ég skil það ekki og leita eftir upplýsingum um það. Mér er sagt að allir sem hafa verið í salnum viti hvernig það hafi gerst en ég hef leitað að þessu með logandi ljósi og ég finn hvergi að þetta hafi verið til umræðu. Mér er hins vegar sagt, og ég segi það nú óábyrgt, og reyndar sá ég það í umsögn frá vegamálastjóra að talað er um brú yfir Borgarfjörð og Dýrafjörð í hans umsögn og hann hefur efasemdir um að þessi lög megi vera svo afdráttarlaus sem gert var ráð fyrir. Mér finnst skipta mjög miklu máli að fá upp klárað hvernig í ósköpunum þetta gerðist. Ég skil það þannig að þeir sem veita umsögn sína og jafnvel þeir þingmenn sem hér töluðu um málið hafi talið að þessar virkjunarframkvæmdir væru ekki til umræðu hvað þetta varðaði. Að sjálfsögðu féllu þær undir þessi nýju lög. Ég hlýt að túlka það þannig.

Mér finnst mjög mikilvægt að þingið í umfjöllun sinni um allar hliðar málsins, bæði um þessa þáltill. og um væntanlega þáltill. frá hæstv. iðnrh., taki tillit til þess sem sérfróðir óháðir aðilar hafa að segja. Nú hefur það spurst að Verkfræðingafélag Íslands sé að undirbúa ráðstefnu um arðsemismat virkjana. Sömuleiðis mun nefnd vera komin í gang á vegum háskólans um gildi náttúruverðmæta og þessa ráðstefnu á að halda og nefndarvinnu á að ljúka innan nokkurra vikna. Ég tel mjög mikilvægt að þingið og þeir sem um þetta fjalla, gaumgæfi niðurstöður þessara sérfróðu óháðu aðila því þótt alþingismönnum sé margt gefið og það sé haft við orð að umhverfismat fari aldeilis fram þar sem alþingismenn muni fjalla um niðurstöður Landsvirkjunar, með fullri virðingu fyrir okkur sem sitjum í þessum sal, tel ég þó enn þyngra á metunum að sérfróðir og óháðir aðilar skili niðurstöðum sínum fyrst.