Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:29:35 (219)

1999-10-07 15:29:35# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Yfirleitt hefur það ekki vafist fyrir hv. þm. að lýsa skoðunum sínum mjög skelegglega í þessu tiltekna máli. En ég er samt ekki alveg viss um hvernig ber að skýra og skilja þetta svar hv. þm.

Undir lok ræðu sinnar sagði hann að hann mundi beita sér fyrir að þetta næði skjótum framgangi. Hann var hins vegar áður búinn að geta þess að það væri að koma annað mál frá hæstv. iðn.- og viðskrh. sem þyrfti líka að fara í gegnum þingið og menn skyldu passa að þar yrði ekki um neinn tvíverknað að ræða. Hv. þm. hefur sjálfur á mjög elegant hátt bent þjóðinni á að sú leið sem hæstv. iðnrh. leggur til að þar verði farin er leið sem virðist beinlínis hönnuð til þess að skjóta málinu fram hjá meðferð hv. umhvn. sem hv. þm. veitir forstöðu. Hann hefur sjálfur gagnrýnt þá málsmeðferð og ég tek undir þá gagnrýni. Ég held að sú leið sem hæstv. iðnrh. leggur til sé ekki til þess fallin að ná sátt og málefnalegri niðurstöðu. Hún er beinlínis sett upp með það fyrir augum að koma í veg fyrir að umhvn. fái málið á sitt forræði.

Hv. þm. sagði líka í sinni fyrstu ræðu að málið væri þrautrætt og umsagnir lægju fyrir þannig að ég held að okkur sé ekkert að vanbúnaði að vinna þetta tiltölulega hratt. Miðað við að við getum ekki gefið okkur niðurstöðu umhverfismatsins --- það kann auðvitað að vera að niðurstaðan verði sú að framkvæmdin verði leyfð og það liggur á að fá endanlega niðurstöðu af hálfu þingsins --- þá bendi ég hv. þm. á að fordæmi eru fyrir því hvernig stjórnarliðið vinnur svona mál sem tímafrek eru.

Ég stýrði sjálfur fyrir hönd stjórnarliðsins meðferð þingsins á gagnagrunnsmáli og þá fóru menn þá leið að þeir settu á fundi daglangt og náttlangt, létu alla menn tala sem vildu en afgreiddu málið mjög skjótt. Ég bendi hv. þm. á að þar er ákveðið fordæmi um það hvernig menn afgreiða mál sem liggur á.

Að öðru leyti þakka ég hv. þm. fyrir það að svo virðist sem hann sé að hníga til þeirrar áttar að afgreiða málið út úr nefndinni en láta það ekki liggja.