Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:55:52 (226)

1999-10-07 15:55:52# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir að ég hafi lýst því yfir í vor að ég væri andvígur þessari virkjun. (ÖS: Nei, að sökkva Eyjabökkum.) Að sökkva Eyjabökkum. Ég er alveg á sömu skoðun enn þá og mér finnst mjög slæmt að það skuli vera uppi sú staða að þetta svæði fari undir vatn. Það hryggir mig mjög ef það verður endirinn.

Ég er alveg sammála því að mat á umhverfisáhrifum gæti hugsanlega leitt eitthvað sérstakt fram í þessu máli en ekki er víst að það mundi leiða til þess að Eyjabökkunum yrði þyrmt. Það er engin trygging fyrir því. Í mínum huga eru Eyjabakkarnir mjög sérstakt svæði að mörgu leyti, sem komið hefur fram m.a. við lestur af skýrslum alls konar og úttektum. Heimsókn þangað upp eftir staðfesti það álit mitt að þetta er mjög sérstakt svæði sem ég hefði gjarnan viljað að mín börn fengju að njóta eins og ég. Vegna þeirra sem áttu hugmyndirnar að virkjuninni, hvað það er langt síðan þeir fóru af stað með þetta og hversu miklar væntingar þeir eru búnir að vekja út af þessu máli, þá er alveg lygilega erfitt að breyta því sem þegar hefur verið ákveðið í málinu, því er nú verr og miður. Þess vegna segi ég, við eigum að reyna að lágmarka þá þann skaða sem af þessu verður til þess að ekki sé bara rifist um einhver tæknileg atriði. Mér finnst menn vera algerlega fastir í því að fara í umhverfismat.

Ég hef aldrei verið á móti virkjunum. Ég er alls ekki á móti því að virkja á Austfjörðum, ég hef aldrei sagt það. Aftur á móti vil ég að náttúruperlur þjóðarinnar verði verndaðar eins og kostur er og þessi perla er mér mjög hugleikin.