Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 16:03:16 (231)

1999-10-07 16:03:16# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég áttaði mig ekki almennilega á því hvort hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson væri að beina til mín spurningu eða ekki. Ég geri mér alveg fyllilega grein fyrir því að þeir umhverfissinnar sem hér hafa talað gera það af einlægum vilja til þess að reyna að vernda náttúruna og reyna að lágmarka skaða af völdum mannvirkjagerðar á hálendinu sem annars staðar og til þess er umhverfismat að sjálfsögðu. En það er ekkert sem tryggir það að umhverfismat vegna virkjunar á Jökulsá í Fljótsdal mundi leiða til þess að Eyjabakkarnir yrðu friðaðir eða þeim yrði þyrmt. Það er ekkert sem segir mér það. Aftur á móti hafa farið fram gríðarlega miklar rannsóknir á þessu svæði.

Við stöndum samt frammi fyrir því að búið er að veita þetta leyfi samkvæmt lögum síðan 1981. Það er líka búið að veita heimild í lögum fyrir því að virkjunin fari ekki í umhverfismat. Við stöndum frammi fyrir því. Það sem ég er að reyna að segja er að meðan menn ætla að halda áfram stríðsrekstri á þennan hátt, þá er alveg ljóst að annar mun gjörtapa en hinn mun hafa allt sitt fram. Það sem ég vil er að menn reyni að ná einhverjum áttum í þessu og reyni að skilja að það verður stundum að beygja sig ef menn ætla að ná einhverju fram.