Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 16:06:20 (233)

1999-10-07 16:06:20# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[16:06]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þarna kom einmitt fram hjá hv. þm. það sem mér hefur fundist slæmt í málflutningi umhverfissinna, þ.e. að gefa sér það í raun fyrir fram að engar virkjanir verði í þeim stórám sem eru á Austfjörðum. Hv. þm. sagðist ekki sjá neina aðra möguleika á þessu svæði til virkjana og þar greinir okkur á.

Ég hef séð fyrir mér að mjög eðlileg leið væri að virkja Kárahnjúka vegna þess að það svæði er ekki nærri eins viðkvæmt. Það er mjög hagkvæmt í virkjun og skapar sömu möguleika. En það eru að sjálfsögðu ýmis vandamál sem fylgja því vegna þess að verið er að framleiða miklu meiri raforku en nauðsynleg er fyrir þessa einu álverksmiðju sem um er að ræða.

Þá komum við að því sama aftur. Menn ætla sér að halda áfram í því farinu að vera á móti öllu því sem á að gera þarna og ætla ekki að hvika neitt frá því. Þá neyðast þeir til þess sem vilja halda áfram með virkjun á Fljótsdal að láta bara reyna á þetta mál og halda því sínu striki. Þar er ég ekki sammála baráttuaðferðunum.