Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 16:34:31 (243)

1999-10-07 16:34:31# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[16:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í rauninni er það í mínum huga svo sjálfsagður hlutur að þessi stóra og mikla framkvæmd, sem er jafnumdeild með þjóðinni og raun ber vitni, eigi að fara í lögformlegt umhverfismat, að það er dapurlegt að þurfa að standa hér og rökstyðja það. Það ætti að vera svo sjálfgefið þegar búið er að lögfesta þann framgangsmáta þegar í hlut eiga meiri háttar framkvæmdir í landinu fyrir mörgum, mörgum árum, að þá stæðum við ekki hér og deildum um það hvort ein allra stærsta, umdeildasta og afdrifaríkasta framkvæmd sem ráðist hefur verið í á Íslandi, mér liggur við að segja í sögunni en alla vega á seinni árum og dæmi eru um, eigi að fara að þessum lögum.

Hvað vakti fyrir mönnum með lögunum um umhverfismat 1993 annað en það að innleiða þann framgangsmáta, þá aðferðafræði almennt þegar framkvæmdir ættu í hlut? Er það þá ekki vondur málstaður að verja að koma hér og ætla að hengja sig í lagakróka til að koma þessari stóru og umdeildu framkvæmd undan því mati? Það finnst mér, herra forseti.

Í fyrsta lagi er ljóst að ákvæði til bráðabirgða II í lögunum um umhverfismat 1993 var ekki sérstaklega sett með Fljótsdalsvirkjun í huga. Auðvitað ekki, enda var sú framkvæmd þá þegar í gangi, búið að bjóða hana út. Það voru aðrar framkvæmdir sem voru á teikniborðinu það vor sem menn höfðu þá í huga. Það er því rangt, það er rangfærsla að Fljótsdalsvirkjun hafi verið þar sérstaklega höfð í huga. Það er ekki hægt að færa fyrir því neinar skjallegar sannanir, það finnst hvergi í neinum lögskýringargögnum sem tengjast afgreiðslu málsins. Þetta eru staðreyndir sem menn ættu að hafa í huga.

Í öðru lagi, herra forseti, á þessi virkjun að sjálfsögðu að fara í umhverfismat vegna þess að fyrir liggur að hún er samkvæmt vilyrði til samningsaðilans upphafið að öðru meiru, upphafið að öðrum og jafnvel enn þá stórfelldari framkvæmdum og enn þá stórfelldara umhverfisraski sem allt er í raun hluti af einni heild. Ef þetta álver á að enda í 480 þús. tonnum þá þarf aflið úr Jökulsá á Dal og meira til, til þess að hægt sé að fullnægja þeim þörfum, og þá erum við að tala um svo stórfellda röskun á náttúru og vatnafari á norðaustanverðu landinu að þess eru engin dæmi, enginn samjöfnuður um annað eins. Ég hygg að það þurfi að fara til Ráðstjórnarríkjanna gömlu og finna plönin um að veita jökulánum suður á bóginn og taka ferskvatnið úr Kaspíahafinu til að hægt sé að finna hliðstæður um álíka vatnaflutninga og á að gera ef taka á svo til allt vatnið úr Jökulsá á Dal og Kreppu, ef ekki hluta af Jökulsá á Fjöllum, og dúndra því öllu austur á Hérað og niður Löginn, sem þá þarf að grafa allan og sprengja út alveg til sjávar til að flytja allt vatnið. Þetta eru áformin. Þetta er upphafið að slíkum hugmyndum sem þarna eru. Og samkvæmt vilyrði og bókun samningsaðila, NORAL-hópsins frá Hallormsstað, á næstsíðasta vori þá stendur þetta svart á hvítu.

Í umræðum í gærmorgun á fundi hjá Samtökum iðnaðarins brá talsmaður samtakanna Afl fyrir Austurland upp glærum þar sem hann gerði grein fyrir áformum eða spám um fólksfjölgun á Austurlandi ef af þessari blessun yrði. Og hann var spurður: Hvað gera þessar spár ráð fyrir stóru álveri? Þetta eru öll 480 þús. tonnin, svaraði hann.

Þannig er það auðvitað að plönin ganga út á að þessi fabrikka endi í þeim stærðum og þá vitum við að aflið verður ekki tekið annars staðar en úr þessum stóru ám þarna og þá eru menn að ráðstafa í aðalatriðum á einu bretti öllu þessu afli. Það er vítavert, það er algjörlega vítavert í ljósi þess hve stórkostlega umdeildar viðbótarvirkjanirnar hljóta að verða, með þeim hætti sem þarna er fyrirhugað, að hleypa málinu af stað svona, að skáskjóta þessu fram hjá lögum um umhverfismat hvað fyrsta áfangann varðar með lagakrókum og refjum af því að menn þora ekki í hitt.

Í þriðja lagi, herra forseti, á þessi framkvæmd að sjálfsögðu að fara í umhverfismat hvað sem upphafinu líður og löngu veittum heimildum, sem því miður eru svo illa úr garði gerðar að þær eru ótímasettar. Það virðist vera svo að Landsvirkjun hafi virkjunarleyfi og framkvæmdaleyfi bara ,,ad infinitum``, um aldur og ævi. Hún geti vakið þau upp árið 2200 eða hvað? Er það svo? Jú, svo furðulega virðist frá þessum hlutum gengið að virkjunarleyfið frá 1991 er ekki tímabundið í þeim skilningi að framkvæmdir þurfi að hefjast fyrir einhvern tiltekinn tíma og þá gildi það ekki.

En svo margt hefur breyst frá því að heimildarlög voru sett á Alþingi 1991 --- og það eru vel að merkja bara heimildarlög --- frá því að framkvæmdaleyfi er gefið út 1981 og 1991, og frá því að lögin um umhverfismat eru sett 1993 að burt séð frá öllum deilum um hvort Fljótsdalsvirkjun var þar sérstaklega höfð í huga eða ekki þá ættu menn núna að sjá sóma sinn í því, í ljósi breyttra aðstæðna að öllu leyti, að setja framkvæmdina í umhverfismat.

Síðan hefur komið til loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna og skuldbindingar Íslands, þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt Ríó-ferlinu. Í öðru lagi EES-tilskipanir og annað því um líkt. Í þriðja lagi Kyoto-bókunin. Hér minnast þessir höfðingjar, ef þeir taka þá til máls sem enn er óséð um, aldrei á slíka hluti. Á umræðufundinum í gær, sem ég vitnaði til, nefndi iðnrh. aldrei á nafn stöðu Íslands gagnvart loftslagssamningnum, Kyoto-bókuninni eða öðru slíku, það er ekki til. Það er verið að reyna að einangra þennan veruleika hér á Íslandi frá slíkum hlutum. Það er auðvitað alveg ótrúlegt að verða vitni að slíku. Það er ekkert verið að gera á Íslandi til að undirbúa möguleika okkar hvað það varðar að fullgilda og uppfylla þessar kvaðir, á sama tíma og í nágrannalöndunum eru menn á fullri ferð að grípa til ráðstafana til þess að löndin geti uppfyllt ákvæði loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar.

Í fjórða lagi hafa síðan orðið gjörbreytingar á viðhorfum almennings. Það hefur orðið vakning með þjóðinni hvað varðar umhverfismál og meðvitund manna fyrir því hvaða verðmæti eru í húfi þar sem er náttúra landsins og ekki síst hálendið. Allt slíkt leggja þessir höfðingjar til að hunsa, hæstv. ráðherrar Framsfl., og virðast vera komnir með íhaldið með sér í að gera það.

Í fimmta lagi má nefna gjörbreytta hagsmuni Íslands að ýmsu leyti. Ég nefni ferðaþjónustuna sem er orðin stóriðja Íslands númer tvö. Skapar núna næstmestan gjaldeyri á eftir sjávarútveginum. Hvar eru hagsmunir hennar hafðir að leiðarljósi í þessari málsmeðferð? Að engu er höfð sú staðreynd að 70--80% þjóðarinnar vilja að lögformlegt umhverfismat fari fram, eðlilega. Ég verð að segja alveg eins og er að það er dapurlegt, herra forseti, að standa frammi fyrir því að menn skuli ætla við aðstæður eins og þessar að rífa þjóðina í rauninni enn frekar í sundur en orðið er, einmitt með þessari aðferðafræði. Því enginn vafi er á því, hversu skiptar skoðanir sem kynnu að verða um niðurstöðuna og endanlegan úrskurð á grundvelli lögformlegs umhverfismats, þá mundu báðir málsaðilar una niðurstöðunni skár, hversu sáttir eða ósáttir eftir atvikum sem þeir kynnu að verða við það hvor kosturinn yrði uppi, að þessi virkjunaráform gengju eftir óbreytt eða ekki, ef farið hefði verið að leikreglunum. Það ljóta við málið er að stjórnvöld ætla að beita ofbeldi til að koma í veg fyrir að farið verði að réttum leikreglum.