Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 16:43:12 (244)

1999-10-07 16:43:12# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[16:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Til hvers erum við að leggja fram þáltill. í stað lagabreytingar um virkjunarleyfi, til hvers?

Í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar kom í raun og veru allt það fram sem máli skiptir, þ.e. til hvers, en samt gat ég ekki skilið hann svo að hann vildi fara þessa leið.

Með því að leggja þetta til er verið að reyna að ná sáttum um málið. Þetta er eina tækið sem við höfum til að nálgast það að ná sáttum. Við höfum ekkert annað. Þetta er eina tækið sem við höfum til að draga úr umhverfisspjöllum, eins og hann hafði vissulega áhyggjur af. Þetta er eina tækið sem við höfum til að koma með aðrar tillögur eða hugmyndir sem gætu dregið úr þeim áhrifum og verið til bóta, þó að orkan sem verði beisluð verði sú sama.

En það eru fleiri þættir. Það er mannlífið, það er félagslegi þátturinn. Þetta er eina tækið sem við höfum til að leita eftir aðgerðum til að draga úr hugsanlegum félagslegum áhrifum svona stórra framkvæmda og að benda á lausnir. Við höfum ekki annað.

[16:45]

Ég efa ekki að skýrsla Landsvirkjunar sé mjög vel unnin en hún þó er aldrei annað en frumskýrsla, frummat, sem þjóðin getur aldrei komið að með ábendingar um hvernig betur megi fara. Benda má á ábendingar Helga Hallgrímssonar náttúrufræðings sem kom með athugasemdir þegar virkjunarframkvæmdirnar voru auglýstar. Þá benti hann á skurði sem væru fyrirhugaðir. Nú eru þeir úti vegna þess að þarna var aðili sem gat bent á þátt sem hafði vissulega mikla röskun í för með sér varðandi lífríkið. Við erum að leita eftir slíkum athugasemdum til að geta gert framkvæmdina eins hliðholla náttúrunni og mannlífinu og unnt er.

Ég skil vel áhyggjur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi. Ég hef staðið í sporum þeirra og ástandið varðandi íbúaþróun og atvinnulíf er mjög bágt. Ekkert bendir til þess að hjólin séu að snúast við. En þetta ástand í mínum ágæta fjórðungi má samt ekki verða til þess að menn vilji horfa fram hjá því að nota það eina tæki sem við höfum til þess að viðhafa vönduð vinnubrögð því að við erum ekki að tala um nema fáa mánuði sem mat á umhverfisáhrifum mundi tefja framkvæmdir ef í þær yrði farið og það er lítill tími fyrir svo stórt málefni.

Hægt er að virkja með öðrum hætti en til stóriðju. Við höfum fengið að heyra það í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að við viljum ekkert, við séum á móti öllu og móti virkjunum. Það er alveg sama hversu oft við segjum að við séum ekki á móti virkjunum, við erum víst á móti virkjunum, við fáum það alveg beint í hausinn aftur. Það er ekki rétt. Við erum bara á móti svona stórum virkjunum. Við erum á móti stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Það er það sem við erum á móti. Við viljum virkja á Austurlandi. Við viljum bara virkja með öðrum hætti. Við viljum ekki virkja með svörtum rörum eins og hæstv. utanrrh. lýsti á fundi um daginn. Það mundi örugglega ekki standast mat á umhverfisáhrifum í dag. (Gripið fram í: Hvaða virkjanir eru það?) Það eru virkjanir á teikniborðinu sem hægt væri að fara í, en ekki til stóriðju, til annarra þátta sem ég er alveg viss um að er fjöldi manna í þjóðfélaginu sem hafa hugmyndir um það til hvers væri hægt að nota rafmagnið og þó ekki væru aðrir en þeir sem eru í fiskvinnslunni, bræðslunni og öðrum orkufrekum iðnaði sem verða að nota olíu í dag.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum fara inn í nýja öld með sjálfbæra orkustefnu. Varðandi úrskurð í þessu máli, þ.e. ef við berum gæfu til að samþykkja þessa þáltill. og láta virkjunina fara eftir lögum í mat á umhverfisáhrifum, verða auðvitað allir að lúta þeirri niðurstöðu. Þar með er ekki sagt að allir verði sáttir en það verður niðurstaða í málinu. Þetta er sáttaleið, þetta er eina tækið sem við höfum. Þetta er sáttaleið sem allir verða að una við. En við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði verðum aldrei sátt við þann úrskurð að sökkva Eyjabökkum og við höfum gert grein fyrir því. Við höfum aðrar hugmyndir um nýtingu á svæðinu. Við bendum á hugmyndir okkar með þáltill. sem liggur hér fyrir um Snæfellsþjóðgarð. Þannig teljum við að við munum nýta svæðið með arðbærari hætti til lengri tíma en með því uppistöðulóni sem nú er áætlað að setja þar niður og stórvirkjun og við höfnum stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar eins og ég sagði áður.

Við viljum að samningaferlið verði stöðvað. Við erum ekki að fara fram á að hætt verði við virkjunina núna. Við viljum ganga í gegnum þetta ferli. Við viljum að samningaferlið verði stöðvað í bili, við stöðvum okkur af. Við gerum eins og flm. þáltill., hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, benti á að inn í rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um virkjanir fari Jökulsá í Fljótsdal og jökulsárnar fyrir austan. Þetta eru það stór og mikil vatnsföll að það verður eitthvað lítið orðið eftir þegar búið er að taka þessi vatnsföll frá í rammaáætluninni. Þetta viljum við að verði gert og með tillögu okkar erum við að leggja fram sáttarhönd og teljum að það sé alveg sama hvort fólk vill virkja eða ekki virkja, fólk krefst þess í dag að unnið sé eftir nútímalegum vinnubrögðum.