Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:00:33 (247)

1999-10-07 17:00:33# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að farið er að lögum í þessu máli. Jafnvel þó að umrætt ákvæði til bráðabirgða hefði ekki komið inn í lögin á sínum tíma, þá býst ég við að niðurstaðan væri sú sama vegna þess að framkvæmdir við þessa virkjun voru hafnar og 83% af því kostnaðarmati sem þar lá fyrir hafði verið boðið út. Ég held því að enginn efist um lagagrundvöllinn í málinu.

Spurningin er hins vegar, eins og ég hef skilið það: Á þrátt fyrir það að fara út í þetta mat með allri þeirri forsögu sem er þarna fyrir hendi, m.a. öllum þeim kostnaði sem þarna hefur verið ráðist í og kominn er eitthvað yfir 3 milljarða? Þetta er mjög löng saga.

Það liggur alveg ljóst fyrir að hv. þm. segist vera á móti stóriðju og á móti þessari virkjun. Það eru sjónarmið sem ég virði og að mínu mati er miklu betra að umræðan gangi fyrst og fremst út á það. Málið snýst fyrst og fremst um það.