Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:05:57 (251)

1999-10-07 17:05:57# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Umhvrh. er að sjálfsögðu ekki að bregðast skyldum sínum og hv. þm. veit að fyrir þessari virkjun er framkvæmdaleyfi. Ég er meira að segja helst á því að hann hafi verið í ríkisstjórn þegar það framkvæmdaleyfi var veitt. (SJS: Já, en ekki með mínu samþykki.) Ekki með þínu samþykki? Hvar kom það fram? Var það bókað í ríkisstjórn, hv. þm.? (Gripið fram í.) Var það bókað í ríkisstjórninni? (Gripið fram í: Nei.) (SJS: Framsóknarmenn hafa áður leikið ...)

(Forseti (GuðjG): Hljóð í salnum. Hæstv. utanrrh. hefur orðið.)

Við skulum tala um þetta mál eins og það er. Það er framkvæmdaleyfi fyrir hendi að því er varðar þessa virkjun og það verður ekki tekið af nema með lögum. Umhvrh. á hverjum tíma ber að sjálfsögðu að hlíta lögum. Auðvitað getur umhvrh. haft þá skoðun að það hefði átt að vinna öðruvísi að málinu áður fyrr. Hæstv. umhvrh. sem nú situr í ríkisstjórn getur ekki breytt þar um. En það má vel vera að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði einhvern tíma getað breytt þar einhverju um. Það þýðir náttúrlega ekkert fyrir hann að tala eins og hann hafi aldrei komið að þessu máli og þeirri sáttargjörð sem hefur verið hérna í þinginu um virkjunarmálin gegnum tíðina, sem hann þekkir og ég þekki líka.