Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:31:33 (264)

1999-10-07 17:31:33# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:31]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vona að Reyðfirðingum þeim sem hafa talað við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur verði það að ósk sinni að fasteignaverð á Austurlandi hækki. Ég held að það sé mjög af hinu góða líka. Það hefði örugglega góð áhrif á efnahag margra sem þurfa af einhverjum ástæðum að flytja sig til.

En hv. þm. nefndi það hvernig áhrif þetta hefði á byggðirnar þarna fyrir austan. Það eru til rannsóknir á því og ýmsar athuganir sem ég enn og aftur ítreka, af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir situr líka í umhvn., að hún kynni sér mjög náið, að hún kynni sér einnig náið hvernig þetta fór í Skotlandi og hvort það var eðli verksmiðjunnar sem hafði þau áhrif að hún dugði ekki sem byggðaaðgerð þar, að hún kynni sér einnig þær byggðir í Noregi þar sem slíkar verksmiðjur hafa haft mjög góð áhrif og almennt hvernig svona fjölbreytt atvinnustarfsemi inn í byggðarlög getur haft áhrif á byggðaþróun. Ég held að það verði mjög fróðlegt fyrir hana að kynna sér þetta.