Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:41:44 (266)

1999-10-07 17:41:44# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir engu máli þótt sú ríkisstjórn sem þarna veiti starfsleyfi var á sínum síðustu dögum. Sú ríkisstjórn ber ábyrgð á því starfsleyfi og þeir sem stóðu að þeirri ríkisstjórn og sá meiri hluti sem stóð á bak við hana. Það liggur alveg ljóst fyrir. Síðan var unnið að málinu í framhaldi af því á þeim grunni og alla tíð unnið að málinu á þann hátt að það væri framkvæmt á grundvelli þeirra laga sem um það giltu.

Hv. þm. talar um ljótan leik í sambandi við byggðamál. Ég heyri ekki betur en að hans flokkur allur sé þeirrar skoðunar í dag að það eigi ekki að virkja stórvötnin á Austurlandi, það eigi ekki að virkja til stóriðju. Við vitum að það er aðeins stóriðja sem kemur til greina í sambandi við þessar virkjanir. Hann er því að segja að það eigi ekki að nýta þessar auðlindir til framdráttar fyrir byggðirnar. Það er skoðun hans. Það er framlag hans inn í þessa umræðu. Hann segir að það eigi að gera eitthvað annað, það eigi að fara í að skapa nýja sýn og útiloka þessa hluti.

Það er alveg ljóst, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að það mun hafa veruleg áhrif, ekki bara á Austurlandi, enda hefur það líka áhrif á Norðurlandi. Það er alveg ljóst að þetta fyrirtæki á Austurlandi mun hafa meiri áhrif en bara þar. Með þeim nánu samgöngum sem eru að myndast milli þessara landshluta hefur það mikil áhrif þar jafnframt, þ.e. á Eyjafjarðarsvæðið, ef menn hætta við þessi áform. Svo geta menn sagt sem svo að það beri að gera eitthvað annað. En því miður hefur hv. þm. ekki bent á neitt.