Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:43:56 (267)

1999-10-07 17:43:56# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við skulum kannski ekki eyða tíma í spurninguna um starfsstjórn og ekki starfsstjórn og á hverju menn beri ábyrgð. En framsóknarmenn eru óvenjuvel að sér í svona sögu því að þetta hefur gerst m.a. í þeirra tíð. Ætli það hafi ekki verið hann Ólafur okkar Jóhannesson heitinn, blessaður, sem notaði ráðherravald sitt á síðustu dögum einnar ríkisstjórnar til þess að heimila mjög umdeildar framkvæmdir suður á Keflavíkurflugvelli og gerði það svo sannarlega ekki með samþykki þeirra sem þá sátu með honum í ríkisstjórn? (Utanrrh.: Hvað var það?) Ætli það hafi ekki verið flugstöðvarbygging eða eitthvað annað í þeim dúr. (Utanrrh.: Var það mjög slæmt?) Við getum svo deilt um það.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að ef menn breyta um áherslur í virkjanamálum og móta sjálfbæra orkustefnu þar sem ekki bara virkjunartilhögunin heldur líka ráðstöfun orkunnar skiptir máli, þá er vel líklegt að það hafi einhver áhrif á virkjanaröð og virkjanatilhögun. Þá er t.d. líklegt að menn mundu hverfa frá núverandi virkjunaráformum í Fljótsdal, skoða e.t.v. smærri og meðalstórar virkjanir, a.m.k. þegar notendamarkaður og minni og meðalstór iðnfyrirtæki ættu í hlut. Þar gætum við hugsað okkur áfanga í gufuaflsvirkjunum og þar gætum við hugsað okkur beinar rennslisvirkjanir í bergvatnsám og ýmsar slíkar minni virkjanir. Það eru margir kostir til slíks á Vestfjörðum, meira að segja á Austfjörðum, og á Vestfjörðum er upplagður kostur þar sem er virkjun í Ófeigsfirði. Slíkar virkjanir gætu því dreifst víða um land. Það væru framkvæmdir á minni skala sem mundu henta heimamönnum betur og þeir réðu frekar við. Eftir því sem orkumarkaðurinn stækkar þeim mun hlutfallslega minni verða viðbætur af því tagi sem Fljótsdalsvirkjun eða aðrar slíkar virkjanir eru.

Eitt af því sem gerir erfitt að ráðast í stórvirkjanirnar fyrst er það að þær eru svo gríðarlega stór hluti af orkumarkaðnum hlutfallslega. Það verður auðveldara eftir því sem fram í sækir. Ég held einmitt að það gæti verið fínt að eiga hið mikla afl í ánum á norðaustanverðu landinu, að svo miklu leyti sem samkomulag verður nokkurn tíma um að virkja það og þá hvernig, þegar við förum t.d. að gera alvöru úr áformunum um vetnissamfélagið. Þá er komin stóriðja sem ég er til í að styðja og annað slíkt.