Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:48:25 (269)

1999-10-07 17:48:25# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg fullkomlega eðlilegt að hæstv. utanrrh. gangi illa að skilja það sem hér er sagt ef hann heyrir alls ekki það sem sagt er. Það er forsenda þess auðvitað.

Það átti að hafa komið alveg skýrt fram í mínu máli að þegar ég og við erum að tala um sjálfbæra orkustefnu þá erum við að tala um að bæði virkjunartilhögunin og ráðstöfun orkunnar taki mið af nútímalegum viðhorfum í umhverfismálum, að menn leiti þeirra kosta varðandi beislun orkunnar sem eru umhverfisvænastir, sem hafa minnst náttúruspjöll í för með sér. Hvort tveggja felst í máli mínu. (Utanrrh.: Er ál bannorð í því?) Nei, ál er ekkert endilega bannorð í því. Hins vegar er ál ekkert óskaplega umhverfisvænt ef við hugsum um alla þá orku sem því miður þarf til að framleiða það. Þá má líka velta því fyrir sér hvort framtíðin liggi ekki frekar í öðrum léttum málmum eða plastefnum sem kosta ekki jafngífurlega orkunotkun og álið. Það er einfaldlega þannig. Það má því deila um það.

En tökum áfram þetta með tilhögun virkjana. Ég vona að hæstv. utanrrh. sé ekki viljandi að reyna að snúa út úr fyrir mönnum með því að segja að ég hafi sagt að það megi virkja og sökkva Eyjabökkum bara ef orkan sé notuð í eitthvað annað en álver á Reyðarfirði. Það er ekki svo. Ég er andvígur þessum virkjunaráformum og ég tel ekkert réttlæta þau, ekki einu sinni erfitt ástand í byggðamálum á Austurlandi eða framtíðarkreppuspár iðnrh. sem eru hroðalegar eins og kunnugt er. (Utanrrh.: Og ekki vetnis ... Og ekki vetni heldur?) Ef við næðum samstöðu um að virkja t.d. Jökulsá í Fljótsdal þannig að þar yrði uppistöðulón neðar, Eyjabökkum yrði þyrmt ... (Gripið fram í: Neðar?) Og þó að það kostaði 10--15% minna afl, þá segjum við bara: ,,Við sættum okkur við það. Það er fórnarkostnaðurinn sem við tökum á okkur til að þyrma, hlífa þessari verðmætu náttúru.`` Maður eins og Helgi Hallgrímsson væri ekki að skrifa það út í loftið að biðja um að slíkir kostir væru skoðaðir ef það væri ekki nema vegna þess að hann vill sýna það að líka umhverfisverndarsinnar og náttúruverndarfólk er tilbúið til að reyna að ná sáttum. En þær sættir nást aldrei með því að annar valti yfir hinn, annað sjónarmiðið sé keyrt yfir og menn fái hvorki skoðun á öðrum kostum né að lögformlegum leikreglum sé hlítt.