Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:57:23 (272)

1999-10-07 17:57:23# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:57]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór býsna víða á þessum tíma enda trúlega býsna ríflega veitt. En ég ætla ekki að elta ólar við allt það sem þar kom fram.

Það kom fram í orðum hans áðan að hann hefur áhyggjur af lónstæðunum, að þau mundu fyllast. Jafnframt hefur það komið fram hjá honum að hann sé samt tilbúinn að virkja Jökulsá í Fljótsdal, en með öðrum lónum. Er ekki jafnmikil hætta, hv. þm., á því að þau lónstæði fyllist? Eru ekki sömu umhverfisáhrif þar og við lónið við Eyjabakka? Þetta eru jökulvötn sem við erum að virkja. Þeim fylgir framburður og sá framburður fyllir upp í lónin á ákveðnum tíma ef ekkert er að gert. Þannig er það.

Mér finnst það tvískinnungur í málflutningi hans að tala um það í öðru orðinu að það eigi alls ekki að virkja og í hinu orðinu að það megi virkja en bara einhvern veginn öðruvísi, með öðrum lónum sem eru einhvers staðar annars staðar en þar sem er búið að hanna þau nú þegar.