Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:10:28 (275)

1999-10-07 18:10:28# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:10]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að gera lítið úr þekkingu hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar og reikna með því að hann búi yfir mikilli visku um jarðfræði. Ég veit sitt lítið af hverju í þeim fræðum en ætla ekki á þessum mínútum að diskútera það við hann. En það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr vitneskju hans.

Hann nefndi það enn og aftur að tækifærisbragur væri á þeirri umræðu sem ég ber hér inn. Ég get sagt honum það til upplýsingar að ég var á ferðamálaráðstefnu 1999 sem Ferðamálaráð Íslands stóð fyrir. Þar kom einmitt fram í máli manna að þessar framkvæmdir á Austurlandi gætu haft afskaplega góð áhrif á ferðamennsku á Austurlandi. Menn sem tóku til máls töldu að það væri hið besta mál að virkja í Fljótsdal og byggja álverksmiðju á Reyðarfirði, og ég tek undir það með þeim.

Menn voru að vísu ekki farnir svo langt að ræða Kárahnjúkavirkjun enda fjallar sú tillaga sem hér er til umræðu ekki um Kárahnjúkavirkjun. Ef í þá virkjun verður farið mun hún, að óbreyttum lögum um mat á umhverfisáhrifum, fara í það ferli sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson ræðir hvað mest um að sú virkjun sem þegar er byrjað á á Austurlandi, Fljótsdalsvirkjun, eigi að fara í, þ.e. að það eigi að afturkalla væntanlega virkjunarleyfið og fara í það matsferli.