Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:16:52 (278)

1999-10-07 18:16:52# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:16]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þeim tíma sem við höfum til ráðstöfunar er ekki hægt að ræða það mál sem hefur orðið að umtalsefni milli mín og hv. þm. Það mun gefast tækifæri til að ræða það. Ég fullyrði aðeins þetta: Hvert mannsbarn sem hefur lesið yfirlýsingar og þekkir eitthvað til þeirra samninga sem þarna eru á ferðinni, og hefur kynnt sér arðsemi og dvínandi arðsemi álversins og þær kröfur sem viðsemjendur okkar hafa haft um það, veit að ekki verði samið um þetta nema til stækkunar komi --- við höfum alveg samsvarandi dæmi í Hvalfirðinum. Þetta veit hvert mannsbarn og ég fæ tækifæri til að skýra það síðar.

Við erum því hér --- og við skulum gera okkur grein fyrir því og við eigum að hafa heilsu til þess --- að horfa fram á veginn og segja þá: Það er þetta sem við erum að gera. Alveg eins og virkjunarmenn eru alltaf að segja við okkur sem biðjum um umhverfismat: Þið skuluð hafa heilsu til þess að segja að þið eruð bara einfaldlega á móti virkjuninni. Þá segi ég: Þá skuluð þið líka hafa heilsu til þess að segja það fullum fetum hversu langt þið ætlið að ganga. Það á að fara í fyrsta áfangann og annan áfangann. Ég skal ekki tala um þann þriðja.

Þetta liggur alveg kristaltært fyrir og að hv. þm. láti þetta frá sér fara eftir að hafa verið á hinum vandaða fundi sem við í iðnn. og umhvn. áttum á Egilsstöðum, þar sem þetta kom glögglega fram, finnst mér ekki nógu góður málflutningur.

Virðulegi forseti. Með því að fara út í Fljótsdalsvirkjun erum við ekki aðeins að fara í eyðileggingu á svæðunum við Snæfell, við erum að fórna svæðinu öllu að mínu mati fyrir norðaustan Vatnajökul. Að gera slíkt án þess að fram fari mat sem er til þess að sætta og til að fá eitthvað vitrænt í alla umræðuna, að neita því er ábyrgðarhluti gagnvart þjóðinni eins og hún er, gagnvart náttúrunni og gagnvart komandi kynslóðum. Mér er sagt að svona lón geti fyllst á 100 árum. Við þekkjum öll menn sem eru níræðir, níutíu og fimm ára og vitum að það er örstutt til næstu 100 ára. Þó það séu 300 ár, að sjá Dimmugljúfrin full af aur og svæðið ónýtt er eitthvað sem ég vil ekki láta gera án þess að fram fari mat á umhverfisáhrifum.