Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:19:33 (279)

1999-10-07 18:19:33# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:19]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Vegna þess að flokkur græningja, vinstri grænna, er með þetta mál vil ég nota tækifærið og fá upplýsingar hjá þeim um það hver stefna þeirra er í virkjunum almennt. Mér hefur fundist koma fram hjá þessum umhverfisvæna flokki að nánast allar stórar virkjanir séu á bannlista. Allar virkjanahugmyndir eins og Kárahnjúkar, Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal, séu á bannlista og þá um leið Jökulsá á Fjöllum.

Þarna eru um 1.300 megavött sem eru virkjanleg, næstum því helmingi meira en allt virkjað afl er í dag.

Ég hef a.m.k. lesið einhvers staðar um það að vinstri grænir hafi mikinn áhuga á vetnisframleiðslu, umhverfisvænum orkugjafa fyrir bíla og skip og annað slíkt. Hafa vinstri grænir þá í raun hugsað sér að virkja bara bergvatnsár til þess að fá það rafmagn sem þarf í vetnisframleiðslu? Ég hef velt þessu fyrir mér í umræðunum. Ég held að við séum út af fyrir sig sammála um verndun á einstökum náttúruperlum. Menn geta deilt um hvað eru náttúruperlur en ég held að við séum sammála um að Eyjabakkarnir séu náttúruperla. En við sjáum, miðað við þann málflutning sem hér hefur verið, að gjörsamlega ómögulegt er að fá einhverja málamiðlun þarna á milli þegar ég heyri hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson segja að hann muni aldrei geta fallist á að Kárahnjúkar yrðu nokkurn tíma virkjaðir. (Gripið fram í.) Ég get ekki séð að það breyti neinu því að hv. þm. lýsti því yfir áðan að hann mundi aldrei geta séð þessi gljúfur fyllast. Ég get ekki ímyndað mér að hv. þm. sætti sig við að þau fylltust þó að umhverfismat hefði samþykkt það. Enda fyndist mér það líka alveg fáránleg röksemdafærsla.

En ég vil bara minna á að þessi hugmynd um Kárahnjúka byggist ekki á því að fylla Dimmugljúfur. Talað er um að 1 km af 13 km verði hluti af uppistöðulóninu þannig að 12 km, sem yrðu væntanlega eftir, mundu vera ósnertir áfram sem slíkir en að sjálfsögðu yrði lítið vatn í þeim.

En ég hef lagt til að skoða ætti þessa hugmynd miklu betur.

Mig langaði aðeins til þess að velta því upp til þeirra umhverfissinna sem hafa talað og ég reikna með að geti komið til umræðu í umhvn., og það er hvernig hægt væri að minnka áhrif umhverfisspjalla vegna virkjana almennt á svæðinu. Ef við lítum á t.d. Fljótsdalsvirkjun er fullt af litlum virkjunum eða stíflum sem verða settar upp samhliða virkjuninni ef fram fer sem horfir sem á að veita inn í Fljótsdalsvirkjunina sjálfa eða inn í þann mikla skurð sem liggur frá Eyjabökkum og alveg niður í stöðvarhúsið. Það á að veita t.d. Hafursá og Grjótá, Hölkná og Langá inn í þann skurð. Þessar ár munu því þorna upp. (Gripið fram í.) Nei, ég er að segja að þarna eru ár sem munu þorna upp. Í mínum huga er töluvert mikið mál að reyna t.d. að verja vatnsföllin, þær bergvatnsár sem eru, eftir því sem mér er sagt --- ég hef nú reyndar ekki séð þær allar en ég hef séð þær sumar --- eru mjög fallegar, og fossaraðirnar í Jökulsá í Fljótsdal eru taldar mjög verðmætar. Hægt er að bjarga þeim að hluta til með því að hafa eitthvað af bergvatnsám í ánni. En aftur á móti mun Jökulsá í Fljótsdal fara í skurð eins og menn vita.

Þar er eitthvað sem hægt er að skoða í þeirri umræðu sem fer fram í umhvn. þegar verið er að reyna að lágmarka umhverfisskaða slíkra framkvæmda.

Ég vildi aðeins slá þessu fram vegna þess að mér finnst að ræða þurfi þetta út frá öllum hliðum, líka þeim hliðum sem geta orðið til að leysa einhvern hluta af málinu. Mér finnst líka gott að fá fram frá vinstri grænum hvað þeir eru í rauninni að meina með því að ætla sér að vera á móti öllum stórum virkjunum, vilja samt fá vetni en vilja þá helst virkja bergvatnsár, sem ég held að séu að mörgu leyti umhverfislega verðmætari vatnsföll en t.d. jökulárnar. Það er að sjálfsögðu matsatriði en fróðlegt væri að heyra skoðanir vinstri grænna á því.