Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:29:28 (282)

1999-10-07 18:29:28# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega dapurlegt að sitja hér aftur og aftur undir þvættingi af því tagi að viðhorf okkar, sem höfum efasemdir um eða erum andvíg núverandi virkjunaráformum, byggist á andstöðu við Austfirðinga og hlutirnir megi ekki gerast þar. Hverjum dettur í hug að halda svona þvættingi fram? Það er mönnum til minnkunar að gera það.

Að sjálfsögðu er það ekki þannig og að sjálfsögðu viljum við gjarnan að allir þeir virkjunarkostir og uppbyggingarkostir í atvinnulífi sem menn sjá mögulega fyrir sér á Austurlandi verði skoðaðir. Ég vona að ekki þurfi að eyða orðum á svona málflutning, hvað þá annað.

[18:30]

Staðreyndin er hins vegar sú að brýnt er að endurmeta stöðu Íslands í þessu sambandi í öllu tilliti, bæði vegna skuldbindinga okkar út á við og vegna okkar sjálfra og framtíðar okkar í landinu. Ef vetnissamfélagið, sem hér hefur aðeins borið á góma, á að geta orðið að veruleika yfir höfuð þá þurfum við að huga að þeirri orku sem í það fer. Hvað felst í því? Jú, hugmyndin er að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti með innlendri umhverfisvænni orku. Það krefst mjög mikillar orku á stórum hluta þess sem enn er eftir óvirkjaður í reynd. Ef innlendi markaðurinn vex svipað og hann hefur gert hingað til, þ.e. almenni notendamarkaðurinn og almennur innlendur iðnaður plús það að við ætlum að leysa af hólmi innflutt bensín, gasolíu og svartolíu þá mun það kosta um 30 teravattstundir samanlagt nálægt árunum 2040--2050.

Þá er ekkert eftir. Við erum því að þrengja að okkur og gera út um það fyrir fram að þessi draumur geti orðið að veruleika, ef við tökum núna stóran hluta orkunnar sem eftir er, því það munar um þessar 9 teravattstundir sem menn eru að tala um þarna samanlagt á Austurlandi, og ráðstöfum þeim til margra, margra áratuga á lágu verði í þágu erlendrar stóriðju, sem verður reyndar ekki einu sinni erlend því ætlast er til að Íslendingar taki, að manni sýnist, að mestu leyti áhættuna af henni.

Við erum því á miklum krossgötum í þessum efnum og er þar af leiðandi mjög brýnt að menn stöðvi sig af og endurmeti hlutina og erfitt að færa rök fyrir því að himinn eða jörð farist þó að menn taki til þess eitt eða tvö ár.