Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:39:30 (286)

1999-10-07 18:39:30# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:39]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til mótvægis við yfirlýsingu þá sem lesin var frá SSA af hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur þá langar mig að lesa brot úr áskorun til Alþingis Íslendinga sem afhent var Alþingi fyrir nákvæmlega ári og er undirrituð af Náttúruverndarsamtökum Íslands, Félagi leiðsögumanna, Fuglaverndarfélagi Íslands, Félagi um verndun hálendis Austurlands, Íslenska Alpaklúbbnum, Landvarðafélagi Íslands, Íslenska fjallahjólaklúbbnum, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, SÓL -- samtökum um óspillt land í Hvalfirði, Ferðaklúbbnum 4x4 og Útivist, og eru fleiri þúsund manns sem standa að baki þessum samtökum sem sendu Alþingi fyrir ári þessa áskorun.

Ég les innganginn, með leyfi forseta:

,,Á miðhálendi Íslands er stærsta óbyggða víðerni Evrópu. Þar skartar íslensk náttúra sínu fegursta. Óvíða --- ef nokkurs staðar --- getur að líta jafn sérstæða blöndu af áhrifum elds og íss. Þar blasa við augum fagursköpuð fjöll og magnþrungnir jöklar, tröllsleg gljúfur, fljót og fossar, grösug ver og heiðar, úfin hraun og mosabreiður. Sjóndeildarhringurinn er víðáttumikill og óvíða ríkir jafn mikil kyrrð og friðsæld.

Þetta sköpunarverk náttúrunnar er einn dýrmætasti auður Íslendinga, hluti af menningu okkar, sjálfsvitund og sögu. Margar þjóðir sjá ekki eftir öðru meira en að hafa fórnað ósnortnum víðernum fyrir skammvinnan efnahagslegan ábata. Slíkum svæðum hefur fækkað mjög á jarðarkringlunni og þau verða sífellt dýrmætari. Ef við röskum ósnortnum víðernum landsins með mannvirkjagerð verður ekki aftur snúið. Þau eru okkur og afkomendum okkar að eilífu glötuð.``