Ráðning forstjóra í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:14:27 (301)

1999-10-11 15:14:27# 125. lþ. 6.1 fundur 43#B ráðning forstjóra í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það var gefin út fréttatilkynning um þetta mál þar sem fram kom að stjórnin taldi að hún þyrfti lengri tíma til að huga að skipulagsmálum að því er varðar starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ýmsir koma að því starfi og hún taldi sig þurfa meira svigrúm til þess. Þetta kom fram í fréttatilkynningunni. Ég heyri það að hv. þm. hefur ekki séð ástæðu til þess að fara yfir hana eða lesa áður en hann bar fram þessa fyrirspurn. (GÁS: Ég er að spyrja um ...) Ég hef í sjálfu sér engu meiru við það að bæta.

Hv. þm. hefur verið ráðherra og ég efast um að hann hafi viljað ræða nákvæmlega á Alþingi um einstaka umsækjendur allra þeirra starfa sem ráðuneyti hans auglýsti þá. Mér er til efs að það sé almennt til siðs í þjóðfélaginu. En þessi rök komu þarna skýrt fram og ég féllst á þau. Ég vona að hv. þm. taki það gilt og telji það af hinu góða að stjórnir stofnana fjalli um slík mál og hafi það sjálfstæði til að farið sé að óskum þeirra.