Menningarhús á landsbyggðinni

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:28:39 (310)

1999-10-11 15:28:39# 125. lþ. 6.1 fundur 45#B menningarhús á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þetta var merkileg ræða. Hér komu fram athyglisverð tíðindi. Það er sem sé ekkert verið að vinna lengur að menningarhúsunum. Nú var þetta á kosningavetri mál sem vakti nokkra athygli, eins og hæstv. ráðherra nefndi, og varð til þess að nokkur umræða fór víða fram. Það var ekki alls staðar einhugur, það er rétt, en einhugur var í Norðurl. e. Enginn ágreiningur var um að menningarhús risi á Akureyri. Þess vegna hefði verið einfalt og í rauninni einboðið að ganga til viðræðna við Akureyringa um þetta verkefni.

Ráðherrann svaraði mér ekki hvort sú nefnd sem hann sagði frá í umræðum hér að ætti að fjalla um þetta mál hefði verið skipuð. Ber að skilja það svo að hún hafi aldrei verið skipuð, að verkefninu hafi einfaldlega alls ekki verið fylgt eftir? Vegna þess, herra forseti, að þó svo að Byggðastofnun hafi ákveðið vegna ærinnar ástæðu að taka menningarmálin sérstaklega fyrir þá finnst mér það ekki gefa ríkisstjórninni eða hæstv. menntmrh. neina fjarvistarsönnun frá þeim fyrirheitum sem hann hefur gefið.