Nýr búvörusamningur

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:37:57 (317)

1999-10-11 15:37:57# 125. lþ. 6.1 fundur 47#B nýr búvörusamningur# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. landbrh. eftir því hvað líði gerð nýs búvörusamnings við sauðfjárbændur um framleiðslu þeirra. Það verður að segja það eins og er að það er afar bagalegt hversu mjög hefur dregist að koma á samningi. Nú eru aðeins örfáir mánuðir til stefnu innan gildandi samnings og í raun hefði samningurinn þurft að liggja fyrir á fyrri hluta þessa árs sem nú er að líða og í allra síðasta lagi hefði samningsniðurstaða þurft að liggja fyrir nú á haustdögum áður en sláturtíð lýkur í haust. Það veit ég að hæstv. landbrh., sem er sæmilega vel að sér um ásetning og annað slíkt sem hér kemur inn í og varðar brýna hagsmuni bænda, skilur það manna best.

Enginn vafi er á því að það mun reynast mjög afdrifaríkt fyrir framtíð þessarar búgreinar í landinu og fyrir búsetu þar með í mörgum strjálbýlishéruðum landsins hvernig til tekst í samningnum. Víða um land bíða mjög margir eftir því að niðurstaða fáist í málinu þannig að menn hafi einhverjar forsendur til að byggja á ákvarðanir sínar, m.a. um framtíð búskapar og búsetu í viðkomandi sveitum.

Mér þykir því rétt, herra forseti, að nota tækifærið til að biðja hæstv. landbrh. að upplýsa hvar málið er á vegi statt. Ég vona svo sannarlega að tekið verði rösklega til hendinni úr því að málið er orðið jafnframorðið og raun ber vitni og hér duga, herra forseti, ekki nein vinnubrögð eða hraði snigilsins.