Nýr búvörusamningur

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:42:52 (320)

1999-10-11 15:42:52# 125. lþ. 6.1 fundur 47#B nýr búvörusamningur# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil geta þess að kannski var ein ástæðan fyrir frestun á málinu fyrri part sumars líka að mikilvægt var að fá nýja sýn á hinn erlenda markað og möguleika búgreinarinnar í þeim efnum. Þar skipaði ég fljótlega nefnd til starfa til að fara yfir þá sýn og þá vinnu. Ég vonast til að sú nefnd skili af sér mjög fljótlega og verður álit hennar jafnframt innlegg inn í sauðfjársamningana. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur leitt þessa nefnd.

Ég vil svo bara að lokum segja það að ég vil eiga mjög gott samstarf við Alþingi Íslendinga í þessu efni og það er vilji ríkisstjórnarinnar allrar. Ekki er það síst hv. landbn. sem er mikilvægt að eiga gott samstarf við um þessi málefni. Af minni hálfu skal það ekki skorta að leyfa hv. þm. að fylgjast með málsmeðferðinni og þróun samningsins þegar hann fer að sjá dagsins ljós.