Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 16:36:01 (330)

1999-10-11 16:36:01# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[16:36]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég næ svörum við öllum þessum fjórum spurningum í einni lotu. Fyrsta atriðið hugleiddi ég einmitt nokkuð og ræddi reyndar við kunnuga menn. Niðurstaðan varð sú að reyna að hafa ákvæðin sem einföldust og miða við 8% eign. Í raun er valið dálítið á milli þeirrar leiðar sem hér lögð til í formi afdráttarlausra ákvæða um hámarkseign eða þeirrar sem núgildandi lög kveða á um en er mjög krókótt og felur í sér heimild til að svipta menn atkvæðisrétti umfram tiltekin mörk, þ.e. atkvæðisrétti umfram það sem fylgir 10% eignarhlut. Ég held að hin leiðin sé hreinni og beinni og þess vegna er hún valin hér og það á þá í raun og veru að gilda einu. Þetta gildir fyrir eignarhlut og þar með atkvæðishlut umfram 8% mörk. En ég viðurkenni vissulega að hin leiðin kemur alveg til greina út frá því sjónarmiði að markmiðið sé fyrst og fremst að hamla gegn því að einstakir aðilar nái yfirráðum með of miklum ítökum.

Önnur spurningin var um sparisjóðina. Það kemur inn á þá sérstöðu sem sparisjóðirnir hafa sem sjálfseignarstofnanir og síðan stjórnað af stofnfjáreigendunum í gegnum aðalafundi og það fyrirkomulag sem þar er sett upp með lögum. Við vitum það, ég og hv. þm., að við erum kannski ósammála um það fyrirkomulag. Ég hef verið mikill stuðningsmaður þess að þeir fái að halda sérstöðu sinni þó að til greina kæmi að gera á því einhverjar breytingar, samanber það sem hefur t.d. verið gert í Noregi og gerir stofnfjáreigendurna í raun að hluta til að eiginlegum eigendum.

Ég á kannski erfitt með að útskýra í stuttu máli það sem ég taldi að fælist í 4. tölulið skilgreiningarinnar á skyldum og/eða fjárhagslega tengdum aðilum en ég vísa til þess að þetta er tekið upp úr auglýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi frumsölu á bréfum í fjárfestingarsjóðnum. Ég skil þetta svo að aðilar sem eru tengdir, samanber skilgreininguna, megi ekki fara yfir þessi 35% mörk.

Í fjórða lagi með fóstbræður og perluvini. Þá erum við komin út í aðra sálma. Verður ekki hægt að svindla á þessu, er kannski sú spurning á mannamáli? (Forseti hringir.) Svarið er auðvitað jú. Það er ekkert fyrirkomulag sem er 100% skothelt að ekki sé hugsanlega hægt að fara einhvern veginn fram hjá því. Það má velta því fyrir sér hvort þarna ætti að koma ,,skúrkaákvæði`` eins og þau eru stundum kölluð, einhvers konar misbeitingarákvæði. Það má vel skoða það en það má líka velta því fyrir sér hvort ekki eigi að reyna að treysta á að menn séu heiðarlegir.