Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 16:39:48 (332)

1999-10-11 16:39:48# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þessu síðustu orð og ég vona að það gildi fyrir alla nefndina, að hún fari í alvöruskoðun á málinu. Það er ekki síst tilgangur okkar flutningsmanna með þessu frv., að koma málinu hér af stað og vekja umræður um þetta. Við vildum gera það með því að leggja til beinharðar tillögur um hvernig mætti hugsa sér að gera þetta og tryggja í lögum að dreifa eignarhaldinu. Að sjálfsögðu eru þetta ekki einu úrræðin sem til greina koma, það viðurkennum við. Ég tel að ábending hv. þm. um að hugsanlega þurfi að bæta í öllu falli við viðbótarskilyrði sem hindri samþjöppun atkvæðisréttar, sem getur vissulega, fræðilega séð, verið fyrir hendi þó um eignarhald sé ekki að ræða í beinum skilningi, í gegnum umboð eða slíka samninga.

Vel kann að vera að styrkja þyrfti fyrstu efnismálsgreinina með viðbótarskilyrði sem tryggði að hvorki eignarhlutur né atkvæðisréttur gæti farið yfir einhver tiltekin mörk sem væri þá kannski eðlilegast að hafa þau sömu 8% og þarna eru sett.

Ég held að ég sé ekki að reyna neitt betur við 4. tölul. þó að enn skorti kannski nokkuð á að öllum sé ljóst við fyrsta yfirlestur hvað í honum felst. En ég vek líka athygli á því að í 3. efnismálsgrein eru þær aðstæður skilgreindar sem geta auðvitað komið upp, að menn lendi upp fyrir þessi eignarmörk óafvitandi eða vegna aðstæðna sem þeir ráða ekki við. Að sjálfsögðu er rétt að hafa þá tiltekin ákvæði um það hvernig menn geta aðlagað eignaraðild sína. Þetta getur svo dæmi sé tekið gerst með erfðum. Einstaklingur sem á eignarhlut upp undir þessum mörkum getur erft viðbót og lendir upp fyrir mörkin. Það er eitthvað sem var ekki í hans valdi endilega að koma í veg fyrir og þá er það að sjálfsögðu ekkert saknæmt heldur gilda þá þessi ákvæði, um aðlögun að reglunum þegar slíkar aðstæður eru uppi. Það gæti líka gerst í tilvikum (Forseti hringir.) sem 4. gr. kemur inn á, þ.e. þegar menn gerðust tengdir vegna viðskipta á markaði og færu þá skyndilega að flokkast sem tengdir eða skyldir aðilar samkvæmt ákvæðum laganna.